Körfubolti

Hörður stein­hissa á spurningu Sigga um leik­stjórn­an­da­guðinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Herði Unnsteinssyni brá í brún þegar Sigurður Orri Kristjánsson varpaði fram spurningu Chris Paul.
Herði Unnsteinssyni brá í brún þegar Sigurður Orri Kristjánsson varpaði fram spurningu Chris Paul. getty/Christian Petersen

„Nei eða já“ er fastur liður í Lögmáli leiksins, þætti Stöðvar 2 Sports um NBA-deildina í körfubolta. Í þætti gærkvöldsins varpaði Sigurður Orri Kristjánsson fram spurningu sem Hörður Unnsteinsson var afar undrandi á.

Leikstjórnandinn þrautreyndi Chris Paul gaf hressilega eftir í síðustu leikjum einvígis Phoenix Suns og Dallas Mavericks í undanúrslitum Vesturdeildarinnar og var ólíkur sjálfum sér. Sigurður Orri spurði Hörð því hvort hinn 37 ára Paul, eða leik­stjórn­an­da­guðinn (e. point god) eins og hann er stundum kallaður, ætti að leggja skóna á hilluna. Ekki stóð á svari hjá Herði.

„Nei ... nei, nei. Það hefði verið gaman ef ég hefði bara farið í já. Hann er að spila á MVP getustigi og er örugglega í öðru úrvalsliði deildarinnar. Hann er topp fimmtán leikmaður í þessari deild,“ sagði Hörður.

„Hann ætti augljóslega ekki að hætta en hann verður ekki, og ég hef svo sem sagt það áður, meistari sem besti leikmaður liðs.“

Klippa: Lögmál leiksins - Nei eða já

Hörður kom þá með spurningu á móti, hvort Phoenix ætti hreinlega að skipta Paul í burtu.

„Ég held að það sé alveg möguleiki. Það þarf þá að vera eitthvað lið sem heldur að það sé nálægt því að vinna. Chris Paul í einhverju svona Oklahoma City Thunder dæmi aftur, ég sé það ekki gerast,“ sagði Sigurður Orri.

Hörður telur líklegast að ef Paul yrði skipt í burtu myndi hann reyna að komast að hjá sterku liði svo hann gæti loks unnið meistaratitil.

„Ef hann á að vinna titil verður það þessi klassíski Jason Kidd eða Gary Payton titil,“ sagði Hörður og vísaði til meistaratitla sem þeir Kidd og Payton unnu á efri árum ferilsins, Kidd með Dallas 2011 og Payton með Miami Heat 2006.

„Nei eða já,“ í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×