Jón Óttar Birgisson, eigandi og framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Stöplar Advisory, kemur nýr inn í stjórnina í stað Gísla Vals Guðjónssonar, framkvæmdastjóra sjóðastýringarfélagsins Ísafold Capital Partners, sem hefur verið í stjórn Nova að undanförnu.
Jón Óttar situr einnig í stjórn Stefnis en sjóðastýringarfyrirtækið, ásamt meðal annars sjóðum í rekstri Landsbréfa og Íslandssjóða, stóðu að baki 3,5 milljarða króna hlutafjáraukningu Nova auk þess sem hluthafar fjarskiptafélagsins seldu hluta af sínum bréfum. Eftir þau viðskipti eignuðust hinir nýju fjárfestar um 36 prósenta hlut í Nova.
Hlutafé Platínum Nova, móðurfélags Nova, var aukið um 685 milljónir króna að nafnvirði í liðnum mánuði og nemur nú um 3.817 milljónum. Hlutafjáraukningin fór fram á gengi sem verðmat hlutafé félagsins á þeim tíma (e. pre money) á rúmlega16 milljarða. Eftir hækkunina er virði hlutafjár Nova því nálægt 20 milljörðum króna.
Aðrir stjórnarmenn Nova eru Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas, Hugh Short, framkvæmdastjóri Pt Capital sem er aðaleigandi Nova, Tina Pidgeon, sem tengist bandaríska sjóðnum, og Kevin Michael Payne, sem einnig er á mála hjá Pt Capital.
Hugh er jafnframt stjórnarformaður Nova en sjóðurinn Pt Capital eignaðist fyrst 50 prósenta hlut í félaginu árið 2017. Þá keypti PT Capital eftirstandandi helmingshlut Novator í ágúst í fyrra og eignaðist við það nærri allt hlutafé félagsins.
Tilkynnt var um það í síðasta mánuði að Nova hefði ákveðið að hefja undirbúning að skráningu hlutabréfa félagsins á aðalmarkað í Kauphöllinni. Stefnt að skráningunni fyrir lok næsta mánaðar en það er Arion banki sem hefur umsjón með henni.