Enski boltinn

Þre­faldur Evrópu­meistari á förum frá Man City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lucy Bronze hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Man City.
Lucy Bronze hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Man City. Ivan Yordanov/Getty Images

Raðsigurvegarinn Lucy Bronze mun yfirgefa Manchester City. Ekki er ljóst hvar þessi þrítugi hægri bakvörður spilar næst.

Bronze hefur átt ótrúlegan atvinnumannaferil og komið víða við. Ferillinn hófst í Sunderland ásamt því að hún lék í bandaríska háskólaboltanum. 

Þaðan fór hún til Everton 2010 og svo Liverpool tveimur árum síðar þar sem hún Englandsmeistari tvívegis áður en hún samdi við Manchester City og varð Englandsmeistari á ný árið 2016.

Þá vann Bronze FA-bikarinn tvívegis með Man City áður en hún samdi við Lyon, besta lið Evrópu þá og nú. Ásamt því að verða Frakklandsmeistari þrisvar þá vann liðið Meistaradeild Evrópu í þrígang.

Árið 2020 hélt hún aftur til Man City en nú er ljóst að Bronze mun færa sig um set í sumar þegar samningur hennar við liðið rennur út. Hún er ekki eini leikmaðurinn sem yfirgefur liðið í sumar. 

Enski landsliðsframherjinn Georgia Stanway mun til að mynda ganga til liðs við Íslendingalið Bayern München í Þýskalandi og þá er fjöldi annarra leikmanna á leiðinni frá Man City.

Manchester City endaði í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í vetur, níu stigum á eftir Englandsmeisturum Chelsea. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×