Erlent

Telja sig hafa fundið elsta tré í heimi í Síle

Kjartan Kjartansson skrifar
Börkur Patagoníugrátviðs. Hann vex afar hægt og getur orðið allt að 45 metra hár.
Börkur Patagoníugrátviðs. Hann vex afar hægt og getur orðið allt að 45 metra hár. Vísir/Getty

Patagoníugrátviður sem hópur vísindamanna hefur rannsakað í sunnanverðu Síle gæti verið meira en fimm þúsund ára gamall. Sé það rétt er tréð það elsta sem vitað er um á jörðinni.

Tréð, sem er kallað langafi, er í Alerce Costero-þjóðgarðinum í Suður-Síle. Vísindamönnunum hefur ekki tekist að aldursgreina það nákvæmlega vegna þess hversu bolur þess er gríðarlega sver. Hann er fjórir metrar í þvermál en venjulega eru tekin eins metra þver sýni til að telja trjáhringi sem segja til um aldur.

Því notaði notaði hópurinn tölvulíkön til viðbótar við að telja aldurshringina sem hann náði í sýni.

Niðurstaða rannsóknarinnar er að tréð sé allt að 5.484 ára gamalt, umtalsvert eldra en broddafurutré í Kaliforníu sem hefur verið talið það elsta á jörðinni til þessa. Furan er 4.853 ára gömul. Sé aldursmælingin rétt er grátviðurinn (Fitzroya cupressoides) töluvert eldri en pýramídarnir í Egyptalandi og skaut upp kollinum um það leyti sem mannkynið tileinkaði sér ritlist.

Jonathan Barinchivich, vísindamaðurinn sem stýrir rannsókninni, segir Reuters-fréttastofunni að 80% líkur séu á að grátviðurinn sé meira en fimm þúsund ára gamall. Fimmtungslíkur séu á að hann sé yngri.

Barinchivich hefur áhyggjur af hvað tréð er áberandi í þjóðgarðinum. Ferðamenn fari oft af útsýnispalli, gangi á rótum trésins og taki með sér hluta af berki þess. Barichivich segir að sambærileg tré í Bandaríkjunum séu falin til að forðast ágang ferðafólks. Segist hann vona að fólk hugsi um það í augnablik hvað það þýði að lifa í fimm þúsund ár og setji það í samhengi við eigið líf og loftslagsvandann.

Ekki eru allir tilbúnir að slá aldri trésins föstu. Ed Cook, stofnandi Trjáhringjarannsóknastöðvar Columbia-háskóla í Bandaríkjunum, segir vísindaritinu Science að eina leiðin til að aldursgreina tré sé að telja alla hringi þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×