Enski boltinn

Tók við liðinu á botni B-deildar og skilaði því upp í deild þeirra bestu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Steve Cooper með bikarinn sem Nottingham fékk fyrir að vinna úrslitaleik umspilsins.
Steve Cooper með bikarinn sem Nottingham fékk fyrir að vinna úrslitaleik umspilsins. James Gill - Danehouse/Getty Images

Nottingham Forest vann Huddersfield Town 1-0 í úrslitaleik umspils ensku B-deildarinnar og er þar með komið upp í ensku úrvalsdeildina eftir 23 ára bið. Það sem gerir afrek Forest enn merkilegra er að liðið var á botni B-deildarinnar þegar Steve Cooper tók við liðinu í september síðastliðnum.

Steve Cooper fór alla leið í úrslit umspilsins á síðustu leiktíð þar sem Swansea City, þáverandi lið hans, tapaði 2-0 fyrir Brentford. Eftir það ákvað Cooper að stíga til hliðar og var hann án starfs er nýafstaðin leiktíð hófst síðasta haust.

Eftir sjö umferðir höfðu forráðamenn Nottingham Forest hins vegar fengið nóg, liðið var með aðeins eitt stig á botni B-deildarinnar og því fékk Chris Hughton að fjúka. Átti það eftir að reynast besta ákvörðun sem Nottingham Forest hefur tekið síðan félagið réð Brian Clough á sínum tíma.

Með jákvæðnina að leiðarljósi tókst Cooper að þjappa leikmönnum Nottingham Forest saman og ásamt því að spila betri fótbolta en áður þá fór liðið að ná í stig. Eftir jafntefli í fyrsta leik sínum með liðið vann Nottingham fjóra leik í röð.

Segja má að nær allt hafi gengið upp hjá Nottingham og þá hefur 5-1 sigur liðsins á Swansea City í lok apríl eflaust verið sérstaklega sætur fyrir Cooper. Liðið hikstaði þó í umspilinu og þurfti vítaspyrnukeppni til að slá Sheffield United úr leik.

Í gær var það svo sjálfsmark Levi Colwill sem gerði það að verkum að Nottingham vann 1-0 sigur og tryggði sér loks aftur sæti í deild þeirra bestu á Englandi. Þar hefur liðið ekki verið síðan vorið 1999 þegar liðið endaði á botni ensku úrvalsdeildarinnar.

Svo virðist sem bæði Steve Cooper og Nottingham Forest hafi tekið hárrétta ákvörðun seint í september á síðasta ári. Undir hans stjórn hefur liðið leikið 45 leiki allt í allt, 27 hafa unnist, 11 hafa endað með jafntefli og aðeins 6 tapast.

Nú er bara að sjá hvort sú tölfræði haldist í ensku úrvalsdeildinni næsta haust.


Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×