Enski boltinn

Horfa til Kata­lóníu í leit að arf­taka Mané

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ousmane Dembélé gæti verið á leið til Bítlaborgarinnar.
Ousmane Dembélé gæti verið á leið til Bítlaborgarinnar. EPA-EFE/BRETT HEMMINGS

Jürgen Klopp horfir til Katalóníu í leit að arftaka Sadio Mané sem virðist vera á leið frá Liverpool í sumar.

Hinn þrítugi Mané á ár eftir af samningi við félagið og getur því farið tiltölulega ódýrt í sumar. Hann hefur lýst því yfir að hann sé í leit að nýrri áskorun og virðist samkvæmt öllu vera á leið til Þýskalandsmeistara Bayerm München.

Klopp virðist nú þegar hafa fundið arftaka Mané en sá leikur í dag í Katalóníu eftir að hafa verið í Borussia Dortmund, gamla liðinu hans Klopp, þar á undan. 

Um er að ræða hinn 25 ára gamla framherja Ousmane Dembélé sem leikur með Barcelona en spænski vefmiðillinn Sport greinir frá.

Dembélé hefur farið í taugarnar á hinum ýmsu aðilum hjá Barcelona síðan félagið keypti hann á 140 milljónir evra sumarið 2017. Hann hefur verið þekktur fyrir að mæta seint á æfingar, vera mikið meiddur og almennt frekar latur. 

Eftir að Xavi tók við stjórnartaumunum á nýafstaðinni leiktíð þá lifnaði Dembélé heldur betur við. Alls kom hann að 14 mörkum í þeim 21 leik sem hann spilaði í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni, á leiktíðinni.

Samningur Dembélé rennur út 30. júní og hefur hann ekki enn skrifað undir nýjan samning. Því gæti Liverpool fengið franska framherjann frítt fari svo að Xavi nái ekki að sannfæra hann um að vera áfram í Katalóníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×