Erlent

Banna Elvisum í Las Vegas að gefa fólk saman

Bjarki Sigurðsson skrifar
Kapella í Las Vegas sem býður upp á hjónavígslur allan sólarhringinn.
Kapella í Las Vegas sem býður upp á hjónavígslur allan sólarhringinn. John Fox/Getty

Fyrirtækið sem á ímyndarréttinn af söngvaranum Elvis Presley hefur sent kapellum í Las Vegas bréf þess efnis að þær eigi að hætta að láta Elvis-eftirhermur halda hjónavígslur. Um hundrað þúsund hjónavígslur fara fram í borginni ár hvert og kemur Elvis við sögu í fjölda þeirra.

Það er Authentic Brands Group (ABG) sem á ímyndarréttinn af Elvis Presley og vilja þeir að kapellur sæki um leyfi og greiði fyrir hvert brúðkaup sem inniheldur Elvis eftirhermu.

Það er óhætt að sega að Elvis Presley hafi átt hug og hjörtu margra og vilja mörg tilvonandi hjón að kóngurinn sjálfur gefi sig saman. Getty/ Bettmann

„Þetta gæti ekki gerst á verri tíma. Þetta er ekki góð tímasetning,“ hefur Review Journal eftir Lynn Goya sem hefur séð um markaðssetningu á hjónavígslum innan Las Vegas. Iðnaðurinn sé að fara aftur í gang eftir erfið ár í heimsfaraldri.

Margar kapellur í borginni óttast það að fara í málaferli við ABG, þar sem þau telja að gjaldþrot blasi við sér sama hvernig fer.

Bannið kemur í kjölfar kvikmyndar um Elvis sem verður frumsýnd í lok júní. Austin Butler fer þar með hlutverk söngvarans og leikur Tom Hanks umboðsmann hans, Tom Parker.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×