Enski boltinn

Meistararnir með auga­stað á Buka­yo Saka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bukayo Saka er orðaður við Manchester City.
Bukayo Saka er orðaður við Manchester City. EPA-EFE/NEIL HALL

Orðrómar þess efnis að Englandsmeistarar Manchester City ætli sér að festa kaup á enska vængmanninum Bukayo Saka verða hærri og hærri með hverjum deginum.

Hinn tvítugi Saka átti mjög gott tímabil er Arsenal var nálægt því að komast í Meistaradeild Evrópu áður en Tottenham Hotspur stal sætinu í raun af þeim undir lok tímabils.

Eftir að hafa verið einn þriggja leikmanna sem brenndi af vítaspyrnu í tapi Englands gegn Ítalíu í úrslitaleik EM síðasta sumar þá steig Saka heldur betur upp í vetur.

Hann var hreint út sagt frábær í frekar varnarsinnuðu liði Skyttanna. Skoraði hann 11 mörk og lagði upp önnur 7 til viðbótar. Alls kom hann því að 18 af 61 marki liðsins í deildinni eða um 30 prósent allra marka liðsins.

Pep Guardiola hefur nú þegar bætt við framherjum í leikmannahóp Man City en virðist vilja bæta enn frekar við sóknarleik liðsins. Hinn örvfætti Saka leikur nær alltaf á hægri vængnum og gæti því veitt Riyad Mahrez samkeppni eða einfaldlega leyst Alsíringinn af hólmi.

Man City varð Englandsmeistari eftir harða baráttu við Liverpool. Þá fór liðið alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið beið lægri hlut gegn verðandi meisturum Real Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×