Enski boltinn

Stefndu á að þre­falda á­horfið en tókst að fjór­falda það á einu ári

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir leikur í ensku úrvalsdeildinni.
Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir leikur í ensku úrvalsdeildinni. Jacques Feeney/Getty Images

Áhorf á úrvalsdeild kvenna í fótbolta á Englandi fjórfaldaðist á tímabilinu sem var að líða. Er deildin gerði nýjan sjónvarpssamning á síðasta ári var stefnt að því að þrefalda áhorf en það virðist ganga framar vonum.

Í apríl á síðasta ári sýndi rannsókn fram á að áhorf á úrvalsdeild kvenna gæti mögulega aukist um 350 prósent á næstu árum. Ástæðan var aukin sýnileiki og aðgengi að liðum deildarinnar þökk sé nýjum sjónvarpssamning.

Það virðist sem téður samningur sé strax farinn að láta til sín taka en áhorf á deildina hefur aldrei verið meira en í vetur. Helst þetta í hendur við aukinn áhuga á kvennafótbolta almennt en til að mynda var heimsmet slegið oftar en einu sinni á Nývangi í Katalóníu er Barcelona lék í útsláttarkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Það sama var upp á teningnum á Englandi en auk þess sem mikil aukning var á fjölda áhorfenda á hverjum leik þá jókst áhorfið heima fyrir til muna.

Á síðasta ári horfðu alls 8,83 milljónir á leiki deildarinnar en í ár var sú tala í 34,048 milljónum. Áhorfið því fjórfaldast á aðeins einu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×