Innlent

Of há laun fyrir lítið bæjar­fé­lag í fjár­hags­erfið­leikum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Guðmundur Ari Sigurjónsson, oddviti Samfylkingarinnar og óháðra, var meðal þeirra sem lögðu fram bókun um ráðningarsamning Þórs Sigurgeirssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins og nýs bæjarstjóra Seltjarnarness.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, oddviti Samfylkingarinnar og óháðra, var meðal þeirra sem lögðu fram bókun um ráðningarsamning Þórs Sigurgeirssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins og nýs bæjarstjóra Seltjarnarness. Vísir/Vilhelm

Þór Sigurgeirsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, var ráðinn bæjarstjóri bæjarfélagsins á fundi bæjarstjórnar í gær. Fulltrúar minnihlutans telja laun bæjarstjórans, sem eru 1,8 milljónir á mánuði, alltof há fyrir jafnlítið bæjarfélag og lögðu til að launin yrðu lækkuð um 500 þúsund á mánuði.

Ráðningarsamningurinn við Þór kveður á um að laun bæjarstjórans séu 1.833.000 krónur og að þau breytist á 12 mánaða fresti í réttu hlutfalli við breytingar á launum sviðsstjóra sveitarfélagsins. Jafnframt greiðir sveitarfélagið bæjarstjóra akstursgjald sem miðast við 500 km akstur í mánuði sem gerir um 63.500 krónur á mánuði.

Peningur sem gæti nýst skólum, félagsþjónustu og tómstundastarfi

Fulltrúar Samfylkingar og óháðra lögðu fram bókun vegna ráðningasamningsins þar sem þau tóku saman laun bæjarstjórans. Heildarlaun hans væru, með aksturstyrk og þóknunum fyrir setu í bæjarstjórn og stjórn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, um 2,4 milljónir á mánuði. 

Í bókuninni kom jafnframt fram að launin væru of há fyrir stjórn í 4700 manna bæjarfélagi, sem væri þar að auki að takast á við erfiða fjárhagsstöðu. Þau lögðu til að hægt væri að lækka laun bæjarstjóra um að minnsta kosti 500 þúsund krónur á mánuði. Það væru mun eðlilegri laun miðað við ábyrgð og umfang starfsins.

„Sú lækkun myndi skila 6 milljónum á ári sem hægt væri að nýta til að bæta umhverfi skólanna, styrkja félagsþjónustuna eða styrkja tómstundastarf barnanna okkar á nesinu,“ segir í bókuninni.


Tengdar fréttir

Segir leitun að við­líka ráðningar­samningi

Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, var ráðin bæjarstjóri Kópavogs á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar í gær. Bæjarfulltrúi minnihlutans gagnrýnir ráðningarsamning bæjarstjóra og segir leitun að viðlíka samningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×