Erlent

Sam­kvæmis­húsa­bann Airbnb orðið varan­legt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Samkvæmishús eru hús sem leigð eru í einungis eina nótt til að halda samkvæmi eða partý.
Samkvæmishús eru hús sem leigð eru í einungis eina nótt til að halda samkvæmi eða partý. Getty

Í rúmlega tvö ár hafa svokölluð „samkvæmishús“ ekki verið leyfð á vefsíðu Airbnb. Þeir sem brjóta regluna verða bannaðir alfarið hjá heimagistingaþjónustunni.

Samkvæmishús eru hús sem leigð eru í einungis eina nótt til að halda samkvæmi eða partý. Eigendur húsanna sem leigja þau út hafa oft ekki gefið grænt ljós á fjölda þeirra sem mæta og getur fyrirtækið lítið gert í því ef allt fer úr böndunum.

Í lok október árið 2019 voru fimm manns skotnir til bana í hrekkjavökuteiti í Kaliforníu-ríki. Leigjandinn hafði sagt eigandanum að hún væri að leigja húsið til að halda fjölskyldumatarboð en í staðinn bauð hún yfir hundrað manns í partý.

Í kjölfar skotárásarinnar setti Airbnb á tímabundið „samkvæmishúsabann“ þar sem leiga sem þessi var gerð með öllu óheimil. Banninu var síðan aflétt en eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar Covid-19 hófst var bannið sett aftur á. Þá hafði fólk byrjað að leigja hús til að halda samkvæmi þar sem allir skemmtistaðir voru lokaðir.

„Eigendur húsa sem nota vefsíðuna okkar hafa tekið vel í bannið og við höfum fengið jákvæð viðbrögð frá leiðtogum samfélaga og kjörnum fulltrúum,“ segir í tilkynningu frá Airbnb.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×