Bíllinn er aðallega hugsaður sem brautardagabíll fyrir velefnað fólk, en hann mun kosta 5 milljónir punda, eða um 813 milljónir króna. Samkvæmt Christian Horner, framkvæmdastjóra og liðsstjóra Red Bull verður bíllinn hugsanlega hannaður til að vera löglegur á götum úti.
Einungis 50 eintök verða smíðuð, 15 á ári og þegar hafa pantanir borist fyrir flesta þeirra. Horner hefur lýst bílnum sem afurð þess að gefa Adrian Newey lausan tauminn til að nýta sköpunargáfur sínar og hæfileika til hins ítrasta án allra takmarkana. RB17 er náttúruleg þróun frá Aston Martin Valkyre. Afhendingar á Valkyre hófust nýlega.

Nafn bílsins er áhugavert. Red Bull Formúlu 1 liðið kallar bíla sína alltaf RB og svo hlaupandi tala. Þegar kórónaveirufaraldurinn olli frestun tímabilsins í Formúlu 1 árið 2020 þá var yfirvofandi reglubreytingum ársins 2021 frestað til að spara Formúlu 1 liðum peningana sem nýr bíll kostar og til að tryggja að öll lið væru klár í keppni þegar fyrsta keppni fór loksins fram. Reglubreytingin tók gildi við upphaf yfirstandandi tímabils. Red Bull sleppti því úr tölunni 17, en bíll ársins 2020 var RB16 og því hefði bíll ársins 2021 alla jafna verið RB17 en af því að breytingin á milli áranna 2020 og 2021 var svo lítil kallaði Red Bull bíl sinn RB16B.
„Hann mun hljóma hrikalega vel, eins og brautarbíll á að hljóma,“ sagði Horner. Aðspurður hvort þetta sé fyrsta skrefið í átt að því að Red Bull verði götubílaframleiðandi svaraði Horner „þetta er upphafið af ferðalagi. Þetta er spennandi upphafsreitur fyrir okkur. Maður á aldrei að segja aldrei, en þetta er tilraunaverkefni fyrir okkur.“