Enski boltinn

Umboðsmaður Rooneys gæti verið í veseni eftir að hafa borgað laun leikmanna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Wayne Rooney með umboðsmanni sínum, Paul Stretford.
Wayne Rooney með umboðsmanni sínum, Paul Stretford. Simon Stacpoole/Offside/Getty Images

Paul Stretford, umboðsmaður knattspyrnuþjálfarans Wayne Rooney, sætir nú rannsókn af hálfu enska knattspyrnusambandsins, FA, eftir að hann var sakaður um að hafa borgað leikmönnum og starfsfólki Derby County laun í laumi.

Stretford er einn af þekktustu umboðsmönnum Englands, en ásamt Rooney er hann með leikmenn á borð við Harry Maguire á sínum snærum.

Derby County hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum undanfarna mánuði. Í september á seinasta ári fór félagið í greiðslustöðvun og í kjölfarið var 21 stig dregið af liðinu sem síðan féll úr ensku B-deildinni.

Vegna fjárhagsvandræða félagsins á Stretford að hafa tekið upp á því að greiða leikmönnum og starfsfólki Derby County laun fyrir maímánuð. Það var The Telegraph sem greindi fyrst frá þessu, en ef Stretford er dæmdur sekur í málinu gæti hann átt yfir höfði sér sekt eða átt í hættu á því að missa leyfi sitt sem umboðsmaður.

Ásakanirnar segja að Stretford hafi borgað leikmönnum og starfsfólki félagsins samtals 1,6 milljónir punda í laun fyrir maímánuð, en það samsvarar tæplega 260 milljónum króna.

Ástæða þess að Stretfod gæti átt yfir höfði sér refsingu fyrir að greiða fólki laun úr eigin vasa er sú að hann og Chris Kirchner eru góðir félagar. Bandaríski viðskiptajöfurinn Kirchner var að reyna að kaupa Derby á þeim tíma sem Stretford greiddi launin úr eigin vasa og enska knattspyrnusambandið gæti rannsakað hvort hagsmunaárekstrar hafi átt sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×