Lífið

Gáfu börnum með einhverfu Lúllu

Elísabet Hanna skrifar
Lúlla er mjúk tuskudúkka sem spilar upptöku af andardrætti og hjartslætti móður í slökun.
Lúlla er mjúk tuskudúkka sem spilar upptöku af andardrætti og hjartslætti móður í slökun. RóRó

Fyrirtækið RóRó sem hannar og gefur meðal annars út Lúlla Doll vöruna gaf á dögunum yfir hundrað vörur til barna með einhverfu og eru sum barnanna sem fengu dúkkuna búsett í Úkraínu.

Vildu gefa börnum dúkkuna

„Í tilefni af Alþjóðlegum mánuði einhverfu, ákváðum við að gefa til stofnanna og góðgerðarsamtaka í Bandaríkjunum sem sinna einhverfum börnum en Bandaríkin eru einn stærsti markaður Lúllu,“ segir Sunna Ósk Ómarsdóttir sem starfar sem markaðsstjóri RóRó þegar hún ræddi við Vísi.

„Við höfum séð í gegnum tíðina að Lúllu dúkkan hefur hjálpað mörgum börnum með einhverfu og aðrar taugaþroskaraskanir að finna ró, öryggi, að sofa betur og að sofna fyrr. Við gáfum til nokkurra félagasamtaka og fengum gríðarlega góð viðbrögð frá börnum og foreldrum sem að fengu dúkkurnar að gjöf,“ segir Sunna um viðbrögð foreldra. 

Eyrún Eggertsdóttir og Sunna Ósk Ómarsdóttir.Aðsend

Lúlla fór til Stanford

„Ein af þeim stofnunum sem við gáfum til var barnageðdeildin við Stanford University school of Medicine. Þau héldu utan um söfnun á leikföngum fyrir einhverf börn í Úkraínu í samstarfi við Styrktarsjóð hinna sameinuðu hjarta (e. Foundation of United Hearts). Þau sáu um að koma Lúllu dúkkunum til barnanna og sendu okkur í kjölfarið myndir, kveðjur og fréttir frá foreldrum þeirra barna sem fengu dúkkurnar.“

Hafa sent dúkkur til barna í ýmsum löndum

„Við gáfum yfir hundrað dúkkur í apríl í tengslum við Alþjóðlegan mánuð einhverfu m.a. til Boston Children’s Hospital, Autism treatment center of Texas, Children’s National Hospital, Marcus Autism Center og Úkraínu.⁠ 

Áður höfum við gefið til barna á Íslandi, þar með talið á leikskóla, í samvinnu við Blár apríl (nú Einstakur apríl) og svo sjá okkar dreifingaraðilar út um allan heim um að koma dúkkum til þeirra sem mest þurfa á því að halda.“

Vilja veita öryggi með góðgerðarmálum

„Áherslan okkar í góðgerðamálum hefur verið að gefa til barna sem þurfa sérstaklega á stuðning að halda við líðan og svefn. Einnig þeim sem að þurfa að vera lengri tíma frá umönnunaraðilum. Lúllu dúkkan var upphaflega hönnuð til að styðja við fyrirbura og önnur vara frá okkur, Lúllu uglan, er einnig hönnuð sérstaklega til að henta yngstu börnunum sem þurfa að dvelja á spítala. 

Í þeirra tilfelli veitir Lúlla þeim öryggistilfinningu með því að líkja eftir nærveru og á að hjálpa þeim að ná betra jafnvægi í líðan, andardrætti og hjartslætti.

Við höfum gefið til fyrirbura, langveikra barna og barna á spítala, fósturbarna, munaðarlausra barna, barna með taugaþroskaraskanir og svo til eldra fólks sem þjáist af heilabilun.“

Líkir eftir nærveru

„Í raun hjálpar Lúlla öllum börnum á svipaðan hátt, hvort sem þau eru með sérþarfir eða ekki. Lúlla er mjúk tuskudúkka sem spilar upptöku af andardrætti og hjartslætti móður í slökun í allt að tólf klukkustundir í senn. 

Með þessu líkir hún eftir nærveru og hentar börnum allt frá fæðingu og upp í skólaaldur.

Hugmyndin að virkni og áhrifum dúkkunnar er byggð á fjöldamörgum rannsóknum og ráðgjöf frá sérfræðingum. Það hefur sýnt sig að hún hentar fyrirburum, langveikum börnum og börnum með sérþarfir og taugaþroskaraskanir, sem og öllum þeim sem upplifa skort á nærveru. Mjög takmarkað framboð er á vörum með áþekka virkni og Lúlla en mikil þörf er til staðar fyrir þennan hóp.“

Erfiðar aðstæður í Úkraínu

„Í Úkraínu eru aðstæðurnar núna auðvitað mjög erfiðar. Lífið getur verið flókið og krefjandi fyrir einstaklinga sem eru á einhverfurófinu. Að búa í heimi þar sem þú þarft að hlusta á loftvarnarflautur tímunum saman og jafnvel sprengingar. Fela þig í sprengjubyrgjum með ókunnugu fólki, að geta ekki haldið sinni venjulegu rútínu þar sem þú hittir kunnuleg andlit. Þetta eru virkilega erfiðar aðstæður fyrir einhverf börn og eitthvað sem við getum ekki ímyndað okkur sjálf að lifa við. 

Þetta eru aðstæðurnar sem foreldrarnir í Úkraínu hafa lýst fyrir okkur og við erum virkilega þakklát þeim að gefa sér tíma til að senda myndir og sögur, bæði af aðstæðunum sem þau búa við og einnig hvernig dúkkan hefur hjálpað þeirra börnum,“ segir Sunna Ósk sem hefur verið að fá viðbrögð frá foreldrum í Úkraínu.  

Veitti öryggi á meðan loftvarnarflauturnar ómuðu

„Eitt foreldri sagði okkur sögu af því að barnið þeirra var á leið til geðlæknis og þurfti að bíða í neðanjarðarlest í þrjá tíma þar til loftvarnarflautur hættu að óma. Barnið tæklaði aðstæðurnar betur en margir fullorðnir og foreldrið sagði okkur að dúkkan hefði þarna komið til bjargar og veitt því öryggi. 

Annað foreldri talaði um að Lúlla hefði hjálpað þeirra barni að sofna sjálft, sem það hafði aldrei gert áður, og nokkur sögðu að börnin þeirra höfðu sofið betur yfir nóttina og dúkkan hefði hjálpað þeim að róa sig fyrir svefninn,“ segir Sunna um öryggið sem hún segir dúkkuna geta veitt.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.