Enski boltinn

Bæði Manchester-liðin vilja Gna­bry

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Serge Gnabry gæti verið á leið til Englands á nýjan leik.
Serge Gnabry gæti verið á leið til Englands á nýjan leik. EPA-EFE/MATTHIAS BALK

Serge Gnabry, framherji Bayern München og þýska landsliðsins, virðist fáanlegur fyrir rétta upphæð. Hann á ár eftir af samningi sínum í Bæjaralandi og renna bæði Manchester-liðin hýru auga til leikmannsins.

Hinn 26 ára gamli Gnabry hefur ekki enn skrifað undir nýjan samning við Bayern og virðist sem endurkoma til Englands gæti verið í kortunum. Gnabry spilaði með Arsenal á sínum yngri árum áður en hann hélt aftur til heimalandsins. Þar hefur hann getið af sér gott orð og verið mikilvægur hlekkur í sigurmaskínu Bayern á undanförnum árum.

Enska götublaðið The Sun heldur því fram að bæði Englandsmeistarar Manchester City sem og Manchester United séu tilbúin að festa kaup á leikmanninum sem ku vera falur fyrir aðeins 35 milljónir punda þar sem Bayern vill ekki missa hann frítt næsta sumar. Mætti flokka það sem rán um hábjartan dag miðað við núverandi markað.

Pep Guardiola vill fá Gnabry til Man City til að fylla skarð Raheem Sterling sem virðist vera á leið til Chelsea í leit að meiri spiltíma. Sá þýski getur spilað á báðum vængjum eða sem fremsti maður og ætti því að nýtast liði Guardiola vel.

Erik ten Hag, nýráðinn þjálfari Manchester United, vill auka gæðin sem og breiddina í sóknarlínu Rauðu djöflanna. Gnabry myndi gera bæði sem og hann yrði þetta stóra nafn sem Man United virðist reyna kaupa hvert sumar.

Bayern vill halda Gnabry í sínum röðum og bauð félagið honum 200 þúsund pund í vikulaun til að vera áfram. Leikmaðurinn neitaði og miðað við hvað Manchester-liðin borga mönnum oft á tíðum í laun gæti sú tala hækkað verulega færi Gnabry sig yfir til Bretlandseyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×