Þetta var ákveðið síðastliðinn föstudaginn en áður hafði legið fyrir að Ísland yrði tekið inn í nýmarkaðsvísitölurnar hjá FTSE frá og með 19. september á þessu ári.
Íslenski markaðurinn fær vigt sem nemur tæplega 0,14 prósentum af vísitölunni sem dreifist mismunandi eftir stærð félaganna í Kauphöllinni. Sérfræðingar á fjármálamarkaði telja að miðað við þá vigt megi áætla að innflæðið frá vísitölusjóðum sem fjárfesta í samræmi við samsetningu vísitölunnar geti verið samanlagt í kringum 50 milljarðar króna.
Í byrjun apríl á þessu ári tilkynnti FTSE um það að íslenski hlutabréfamarkaðurinn myndi fara upp í flokk nýmarkaðsríkja hjá vísitölufyrirtækinu í september næstkomandi en við það munu skráð félög hér á landi komast í sigti margfalt stærri hóps erlendra fjárfestingarsjóða. Íslenski markaðurinn var áður flokkaður sem vaxtarmarkaður (e. Frontier Market) hjá FTSE frá því í september 2019.
Eftir að FTSE boðaði uppfærslu á Íslandi úr flokki vaxtarmarkaðar í nýmarkaðsríki fyrir um þremur mánuðum fór strax að bera á auknu innflæði frá vísitölusjóðum inn á hlutabréfamarkaðinn og viðmælendur Innherja áætla að það geti hafa numið samtals um 20 milljörðum króna frá þeim tíma.
Fjórtán félög í Kauphöllinni eru tekin inn í nýmarkaðsvísitölurnar hjá FTSE en aðeins tvö þeirra – Arion banki og Marel – eru flokkuð sem meðalstór á meðan hin eru skilgreind sem lítil félög.
Upphaflega var gert ráð fyrir því að Síldarvinnslan yrði á meðal þeirra félaga sem færu inn í vísitölurnar. Í síðasta mánuði, eins og Innherji hefur áður fjallað um, upplýsti FTSE hins vegar um að það Síldarvinnslan, sem var skráð í Kauphöllina fyrir um ári síðan og er með markaðsvirði upp á 160 milljarða, hefði verið tekin út úr þeim hópi. Í ákvörðun FTSE var vísað til þeirra laga sem gilda um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi og setur verulegar skorður á eignarhald þeirra í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar í efnahagssögu Íslands.
Umfang sjóða sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við nýmarkaðavísitölur er margfalt meira en þeirra sem fylgja vaxtarmarkaðsvísitölum.
„Þetta snýst ekki einungis um vísitölusjóði – þá erum við líklega að tala um nokkra tugi milljarða – heldur einnig um virka fjárfesta, bæði þá sem sérhæfa sig í fjárfestingum á nýmörkuðum og þá sem einfaldlega sjá flokkun FTSE sem merki um að íslenski markaðurinn sé á réttri leið,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, í viðtali við Innherja í aprílmánuði á þessu ári.