Enski boltinn

Man City stað­festir Phillips sem fær sex ára samning

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kalvin Phillips er nýjasti leikmaður Manchester City.
Kalvin Phillips er nýjasti leikmaður Manchester City. Twitter@ManCity

Enski miðjumaðurinn Kalvin Phillips er genginn í raðir Englandsmeistara Manchester City. Hann skrifaði undir sex ára samning við félagið. 

Hinn 26 ára gamli Phillips hefur verið orðaður við Man City undanfarna mánuði en snemma var ljóst að Pep Guardiola, þjálfari liðsins, vildi fá Phillips til að leysa hinn brasilíska Fernandinho af hólmi.

Phillips hefur spilað með Leeds United allan sinn feril en það var ekki fyrr en Marcelo Bielsa tók við sem þjálfari þess að Phillips fór að vekja almenna athygli. Hann var hreint út sagt frábær er Leeds mætti með látum upp í úrvalsdeildina á þar síðustu leiktíð. Ekki leið á löngu þangað til hann var orðinn fastamaður í enska landsliðinu og fór hann alla leið í úrslitaleik EM 2020 með liðinu.

Þrátt fyrir að vera glíma við meiðsli á síðustu leiktíð og vera töluvert frá sínu besta, líkt og allt Leeds-liðið, þá ákvað Man City samt að spreða á bilinu 42-45 milljónum punda í leikmanninn en fjölmiðlar ytra eru ekki á allt sammála um kaupverðið. Það er hins vegar ljóst að Phillips hefur skrifað undir sex ára samning í Manchester.

„Man City hefur sýnt og sannað að þeir eru besta lið landsins ásamt því að þjálfarinn er talinn einn sá besti í heiminum. Að geta spilað undir stjórn Pep, lært af honum sem og þjálfarateymi félagsins er eitthvað sem ég er mjög spenntur fyrir,“ sagði Phillips meðal annars í sínu fyrsta viðtali sem leikmaður Manchester City.

Kalvin Phillips er fjórði leikmaðurinn sem Manchester City kaupir í sumar. Stærstu kaupin voru norski framherjinn Erling Braut Håland en félagið hafði einnig keypt argentískan framherja að nafni Julián Álvarez og markvörðinn Stefan Ortega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×