Erlent

Tólf með­limir trúar­hóps hand­teknir vegna dauða átta ára stúlku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér sést Elizabeth ásamt elstu systur sinni.
Hér sést Elizabeth ásamt elstu systur sinni.

Tólf meðlimir trúarhóps í Ástralíu hafa verið handteknir í tengslum við andlát átta ára stúlku. Stúlkan, sem var sykursjúk, lést í janúar á þessu ári. Talið er að henni hafi verið neitað um insúlín í tæpa viku.

Fyrr á þessu ári voru foreldrar stúlkunnar, sem hét Elizabeth Struhs, ákærðir fyrir morð, pyntingar og að hafa ekki séð stúlkunni fyrir nauðsynjum sem hún þurfti til þess að lifa af. Nú hefur lögreglan í Ástralíu handtekið tólf til viðbótar tengslum við andlátið.

Hin handteknu eru á aldrinum 19 til 64 ára og eru talin hafa verið meðvituð um hrakandi ástand stúlkunnar, en ekkert aðhafst.

Báðu fyrir bata

Foreldrar Elizabeth, þau Jason og Kerrie Struhs, eru meðlimir í litlum trúarhópi í borginni Toowoomba, sunnan Brisbane, sem tengist ekki stærri kirkju eða trúarhópi. Hin handteknu tilheyra sama hópi. Lögregla segir fólkið hafa beðið fyrir Elizabeth þegar hún tók að veikjast, án þess að aðhafast nokkuð frekar. Yfirvöld voru þá ekki látin vita fyrr en daginn eftir að Elizabeth lést.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Jayde, elstu systur Elizabeth, að stórfjölskylda stúlkunnar sé í molum.

„Við höfum þurft að horfast í augu við þann kalda veruleika að fólkið sem átti að vernda hana gerði það ekki, og að við munum mögulega aldrei vita nákvæmlega hvað átti sér stað.“

Foreldrar hennar, sem hún var ekki í sambandi við, hafi verið hluti af sértrúarsöfnuði sem var drifinn áfram af ótta og stjórnsemi.

Þau tólf sem nú hafa verið handtekin verða leidd fyrir dómara á morgun, en foreldrar Elizabeth eiga að mæta fyrir dóm síðar í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×