Mikil umræða hefur myndast um þennan málaflokk á seinustu dögum en á mánudag talaði fréttastofa við foreldra fjölfatlaðrar konu sem varð nýlega átján ára og þá veggi sem þau hafa lent á vegna þess.
Guðmundur Ingi mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun að sum af þessum málum sem að snúi að málefnum fatlaðs fólks, og þá sérstaklega það sem sé hér til umræðu, sé ekki á alveg á nógu góðum stað í augnablikinu. Hann segir sárt að heyra lýsingarnar og horfa upp á þessi vandræði sem fólk sé að rekast á í kerfinu. „Sumt af þessu erum við byrjuð að vinna í að ráða bót á.“
Guðmundur segir að áður en hann tók við embætti hafi hann ekki sérstaklega hugsað út í að það væru stórar áskoranir fólgnar í því að koma stafrænni þróun á fyrir einhverja ákveðna hópa.
Hann segir ráðuneytið vera búið að vera að vinna að því í samvinnu við réttindagæsluna síðan í haust að koma á svokölluðum talsmannagrunni í samstarfi við stafrænt Ísland. „Þetta er svona nokkurs konar umboðsvefur þar sem að þá Ísland.is er tengt við kerfi réttindagæslunnar þar sem allir samningarnir eru við alla talsmennina, þá á að vera hægt að tengja þessa rafrænu þjónustu beint við talsmennina.“
Guðmundur Ingi segir stjórnmálamenn eiga að vinna fyrir fólkið í landinu og fatlað fólk sé hópur sem hann vilji leggja mikla áherslu á að bæta réttindi og þjónustu fyrir.
Hann segist halda að það muni skipta höfuðmáli að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
„Þarna erum við að ráðast í vinnu þar sem að við ætlum að búa til landsáætlun þar sem að sett verða fram markmið og aðgerðir um það hvernig við innleiðum hvert og eitt ákvæði samningsins um réttindi fatlaðs fólks,“ segir Guðmundur.
„Þá sé ég fyrir mér að við séum komin með mjög sterkt vopn í hendurnar til þess einmitt að gera kerfið betra, það er algjört grundvallaratriði í mínum huga að vinna að því.“
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.