Enski boltinn

Man Utd valtaði yfir Liver­pool í fyrsta leik Erik ten Hag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anthony Martial skoraði með snyrtilegri afgreiðslu.
Anthony Martial skoraði með snyrtilegri afgreiðslu. Pakawich Damrongkiattisak/Getty Images

Manchester United vann 4-0 sigur á Liverpool er liðin mættust í vináttuleik í Bangok í Tælandi. Var þetta fyrsti leikur Man United undir stjórn nýs þjálfara.

Man United stillti upp nokkuð sterkara liði en Liverpool en flestar af stjörnum Liverpool komu inn á þegar líða fór á leikinn. Bæði lið notuðu urmul leikmanna í leik sem fór fram í miklum hita og raka.

Man. United fékk sannkallaða draumabyrjun en Jadon Sancho kom lærisveinum Ten Hag yfir strax á 12. mínútu leiksins. Áfram hélt Man Utd að sækja og eftir langa sókn þar sem boltinn skoppaði á milli manna endaði hann hjá Brasilíumanninum Fred sem lyfti honum snyrtilega yfir landa sinn Alisson í marki Liverpool.

Aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin 3-0 en Anthony Martial skoraði þá úr þröngu færi þegar hann lyfti boltanum, einnig snyrtilega, yfir öxlina á Alisson sem gerði sitt besta til að loka markinu. Staðan 3-0 er liðin gengu til búningsherbergja. 

Í síðari hálfleik var leikurinn töluvert jafnari og átti Mohamed Salah til að mynda skot í stöng fyrir Liverpool. Boltinn féll fyrir fætur Darwin Núñez sem lúðraði yfir af markteig.

Þegar stundarfjórðungur lifði leiks leit fjórða markið dagsins ljós. Facundo Pellestri batt þá endahnút á góða sókn sem miðvörðurinn Eric Bailly hóf með því að vinna boltann og vaða upp völlinn. Staðan orðin 4-0 og reyndust það lokatölur, frábær úrslit í fyrsta leik Erik ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×