Fótbolti

Landsliðsþjálfarinn dreginn út á róluvöll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson á æfingu íslenska liðsins.
Þorsteinn Halldórsson á æfingu íslenska liðsins. Vísir/Vilhelm

Það voru ekki aðeins leikmenn íslenska landsliðsins sem fengu að hitta sína nánustu á frídegi íslenska landsliðsins í gær því þjálfarateymið fékk líka tíma til að anda.

Fram undan er gríðarlega mikilvægur leikur á móti Ítalíu þar sem ekkert nema sigur dugar báðum liðum í baráttunni um laus sæti í átta liða úrslitum EM í Englandi.

Þjálfarateymið tók þá ákvörðun að hlaða einnig á andlega tankinn tveimur dögum fyrir leikinn.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, sagði frá sínum degi á blaðamannafundi í Manchester í dag. Hann fór ekki í golf en gerir greinilega mikið af því þar sem hann fékk fyrir vikið smá skot frá Ómari Smárasyni fjölmiðlafulltrúa.

„Ég fór ekki í golf því ég ákvað að velja fjölskylduna fram yfir golfið í þetta eina skiptið,“ sagði Þorsteinn Halldórsson léttur.

„Ég fór og hitti dætur mínar, barnabarn, kærustu og stjúpföður. Það var bara gaman,“ sagði Þorsteinn og afi þurfti strax að vinna upp tíma með barnabarninu sínu.

„Ég eyddi smá tíma með þeim og var dreginn strax út á róluvöll. Þetta var ágætis dagur,“ sagði Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×