Menning

Gaurar að borða sterkan mat í köldum potti, geðheilsumálverk og geislasverð

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Nokkrir drengjanna koma kari fyrir til að undirbúa kalda pottinn fyrir kvöldið. Á sýningunni munu tveir strákar sitja í pottinum, ræða sín á milli og borða sterkan mat.
Nokkrir drengjanna koma kari fyrir til að undirbúa kalda pottinn fyrir kvöldið. Á sýningunni munu tveir strákar sitja í pottinum, ræða sín á milli og borða sterkan mat. Aðsent

Hópur ungmenna heldur listasýningu í Gerðarsafni í kvöld sem er afrakstur sumarstarfs þar sem krakkarnir hafa fengið að kynnast alls konar samtímalist. Til sýnis verða meðal annars tveir gaurar í köldum potti að borða sterkan mat, málverk af geðheilsu og geislasverðabardagi.

Í sumar hefur hópur af ellefu ungmennum á aldrinum fimmtán til sautján ára haft það sem sumarstarf hjá Kópavogsbæ að kynnast samtímalist. Sumarstarfið hefur meðal annars falist í heimsóknum á helstu listasöfn höfuðborgarsvæðisins, smiðjum frá listamönnum og kynningum á ýmsum fjölbreyttum listformum.

Afrakstur sumarsins verður til sýnis á Bestu sýningunni á Gerðarsafni í dag, fimmtudaginn 14. júlí, frá klukkan 18 til 21. Krakkarnir spenna bogann hátt og lofa skemmtilegustu og flippuðustu sýningu Íslands til þessa.

Ungmennin voru með gjörning á 17. júní í sumar þar sem þau þóttust vera vinnuskólahópur og voru í pásu allan daginn.Aðsent

Þetta er að vísu ekki fyrsta sýning krakkanna af því á 17. júní í sumar stóðu krakkarnir fyrir gjörningi sem vakti mikla athygli viðstaddra og rataði í kvöldfréttirnar. Þar þóttust þau vera vinnuskólahópur sem var í pásu allan daginn.

Flippuð og fjölbreytt listasýning

Blaðamaður hafði samband við tvo meðlimi hópsins, þau Sigurjón og Emmu, til að forvitnast um sumarstarfið og listasýninguna. Þau lýstu sumarstarfinu sem borguðu námskeiði þar sem hefðu fengið að læra um list, fara á „alls konar listasöfn og námskeið“ og fara í ferðalög.

Meðal þess sem þau hafa fengið að kynnast í sumar er keramík, gamaldags prentverk, úrklippur, vídjóverk og listdans.

Krakkarnir lofa bestu og flippuðustu sýningu Íslands til þessa.Aðsent

Þau lofa flippaðri og fjölbreyttri listasýningu með veitingum, búningum og „alls konar gjörningum.“ Þá verðar ýmiss konar listaverk til sýnis, ein stúlkan „er að mála meiningar af geðheilsu, túlka geðheilsu í manneskjum,“ segir Sigurjón og bætir við „svo eru tveir gaurar í potti í podcasti.“

Inntur eftir frekari skýringum segir hann „Það verður kaldur pottur og í honum verða tveir gaurar að borða sterkan mat og tala saman.“

„Þetta er dálítið flippað.“

Þetta er annað árið sem sumarstarfið er á boðstólnum og er sniðug leið fyrir krakka til að fá smá pening, hafa eitthvað fyrir stafni og kynnast samtímalist í leiðinni.Aðsent





Fleiri fréttir

Sjá meira


×