Hingað til hafa brugghús landsins aðeins mátt selja bjórinn af dælu og þá mega viðskiptavinir ekki hugsa sér til hreyfings, að minnsta kosti ekki með bjórinn. En nú hefur orðið breyting á, þar sem ný áfengislög kveða á um að handverksbrugghús sem framleiða minna en 500 þúsund lítra af bjór megi selja hann beint frá býli og út úr húsi.
Smiðjan brugghús varð það fyrsta til að fá leyfi til að selja bjór frá framleiðslustað og var sá fyrsti seldur klukkan 12 að hádegi í dag. Þórey Richardt Úlfarsdóttir er stjórnarformaður og rekstaraðili Smiðjunnar. Hún er hæstánægð með leyfið og viðskiptin.
„Við erum bara hrikalega ánægð með þetta. Ég held þetta sé bara í fyrsta sinn í 110 ár sem það er leyfilegt að ríkið komi ekkert að þessu.“
Bjórinn sem fór í sölu segir Þórey vera þann ferskasta sem völ er á.
„Við erum með ansi margar tegundir af bjórum hérna, til dæmis sumarbjórinn okkar, Fá Cher sem er lager bjór og Fá Cher til að ná sér sem er New England IPA. Svo erum við með stout og pilsner. Hér erum við líka með mun fjölbreyttara úrval hér hjá okkur en við náum að hafa í Vínbúðinni. Þar þarf nefnilega að viðhalda ákveðnu magni til að bjórinn komist í einhverja sölu af viti.“
Starfsfólk Smiðjunnar sjái því fram á bjarta og skemmtilega tíma og segjast spennt að prófa sig áfram í brugginu.