Enski boltinn

Eriksen orðinn leikmaður Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Danski landsliðsmaðurinn er ánægður með að vera kominn til Manchester United.
Danski landsliðsmaðurinn er ánægður með að vera kominn til Manchester United. Martin Rose/Getty Images

Það er ekki nóg með að Manchester United raði inn mörkum í æfingaleikjum heldur er félagið líka byrjað að sækja leikmenn. Rétt í þessu var staðfest að Christian Eriksen væri genginn í raðir félagsins.

Hinn þrítugi Eriksen hefur verið að því virðist í lengstu læknisskoðun síðari ára en töluvert er síðan tilkynnt var að hann væri við það að ganga í raðir Manchester United. Læknisskoðun tók sinn tíma, enda fór Eriksen í hjartastopp á Evrópumótinu 2020, en henni er nú lokið og danski landsliðsmaðurinn orðinn leikmaður liðsins.

Eriksen gerði garðinn frægan með Tottenham Hotspur á Englandi áður en hann hélt til Inter Milan á Ítalíu. Hann var leikmaður Inter er hann hneig niður á EM og yfirgaf félagið í kjölfarið þar sem hann fékki ekki leyfi til að spila á Ítalíu eftir að hafa fengið bjargráð.

Eriksen segist eiga nóg eftir og metnaðurinn hafi sjaldan verið meiri. Hann telur að Man Utd sé rétti staðurinn til að halda vegferð sinni áfram.

Eriksen lék á sínum tíma með Ajax í Hollandi og ætti því að vita við hverju er búist við af honum hjá Man United þar sem Erik ten Hag, nýráðinn þjálfari liðsins, stýrði Ajax á síðustu leiktíð.

Ásamt Eriksen hefur Man Utd fengið vinstri bakvörðinn Tyrell Malacia til liðs við sig og þá herma ýmsar heimildir ytra að það styttist í að Lisandro Martínez gangi til liðs við félagið. Hvað varðar komu Frenkie de Jong þá veit enginn neitt og sömu sögu er að segja af mögulegri brottför Cristiano Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×