Greint var frá því í dag að sterkur grunur léki á að hér á landi hefði greinst Brucella canis baktería í hundi, á íslensku heita bakteríur af þessari gerð öldusótt. Bakterían er svokölluð súna, það er sjúkdómur sem getur borist frá dýrum yfir í menn.
„Þetta er eitthvað sem að hefur ekki greinst hér á landi áður og þess vegna er verið að gera sérstaklega viðvart um það en það er ekki líklegt að þetta berist í fólk, það getur gerst en það er mjög sjaldgæft,“ segir Guðrún Aspelund, starfandi sóttvarnalæknir.
Og enginn grunur um það núna að það sé búið að gerast eða hvað?
„Nei, það er enginn grunur um það.“
Hundurinn sem er líklega smitaður hefur verið notaður til ræktunar hér á landi en samkvæmt heimildum fréttastofu kom hann til landsins frá Úkraínu fyrir fáeinum árum. Helsta smitleið sjúkdómsins er einmitt við pörun eða náið samneyti milli hunda.
Matvælastofnun vinnur nú að því að rekja samskipti hundsins við aðra hunda og koma tilmælum til eigenda um heimasóttkví dýranna.
Helsta einkenni sjúkdómsins hjá hundum eru fósturlát seint á meðgöngutíma, andvana eða veikburða hvolpar sem oft drepast fljótlega og bólgur í eistnalyppum hjá rökkum.
Í þeim fáu tilfellum sem sjúkdómurinn hefur greinst í mannfólki hafa einkennin verið væg; hiti, hrollur, vanlíðan, lystarleysi, bein- eða vöðvaverkir og eitlastækkanir.
Þannig það er engin ástæða til að hafa neinar áhyggjur af þessum sjúkdómi eins og staðan er núna eða hvað?
„Nei, mér finnst ekki nein ástæða til að hafa áhyggjur eins og er. Þetta er eitthvað sem við þurfum bara að staðfesta og ef það kemur í ljós að þetta er þessi sjúkdómur þá held ég að sé búið að grípa inn í nú þegar og ég myndi ekki hafa neinar áhyggjur af því,“ segir Guðrún.