Í gær birtist frétt á DV um ásakanirnar en þær voru að hann hafi fengið sjúkling í kynlífsiðkanir með sér gegn hennar vilja og að hann hafi sýnt fram á óeðlilega hegðun gegn sjúkling við læknisheimsókn.
DV sendi fyrirspurn á Heilsugæsluna í Urðarhvarfi en í svari framkvæmdastjóra kom fram að læknirinn hafi hafnað ásökununum en óskað eftir því að fara í leyfi. Sturla var ekki nafngreindur í frétt DV en í ummælakerfinu undir ásökununum var hann nafngreindur.
„Ég vil byrja á því að taka hér fram að ég hef aldrei brotið kynferðislega gegn öðrum einstaklingi. Aldrei. Né hef ég nýtt starf mitt sem læknir til að brjóta á eða misnotaða aðstöðu mína á nokkurn hátt gegn sjúklingum mínum eða öðrum einstaklingum. Aldrei,“ segir í yfirlýsingu Sturlu sem send var á fjölmiðla í gær.
Hann viðurkennir þó að hann hefði mátt vera nærgætnari í orðavali við konur „því það er ekki fullorðnum karlmanni sæmandi að ávarpa allar konur til dæmis sem prinsessur eða kalla þær elskulegar,“ líkt og segir í yfirlýsingunni. Hann segist ætla að vanda orðaval sitt í framtíðinni og biður þær konur sem hann hefur sært blygðunarkennd hjá afsökunar.
Hann segir mikla ábyrgð vera fólgna í því að eiga í samskiptum við aðra manneskju í starfi og lífinu en það fylgi einnig mikil ábyrgð í að bera aðra manneskju þungum sökum á samfélagsmiðlum. Hann segist ekki hafa neitt að fela.
„Af virðingu við fyrirtækið sem ég hef ásamt öðrum lagt hart að mér að byggja upp og einnig af virðingu við það góða fólk sem þar vinnur og þangað sækir ákvað ég að taka mér leyfi frá störfum. Það erfiða skref tek ég vitandi að ég hef aldrei gerst sekur um þær þungu sakir sem á mig eru bornar. Aldrei.“