Menning

„Hin lifandi list er auðvitað bara lífið sjálft“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Listakonan Margrét Jónsdóttir stendur fyrir sýningunni ÓBÆRILEGUR LÉTTLEIKI TILVERUNNAR.
Listakonan Margrét Jónsdóttir stendur fyrir sýningunni ÓBÆRILEGUR LÉTTLEIKI TILVERUNNAR. Aðsend

Listmálarinn Margrét Jónsdóttir stendur fyrir sýningunni ÓBÆRILEGUR LÉTTLEIKI TILVERUNNAR í Gallerí Gróttu. Í list sinni er hún stöðugt að túlka það sem hún skynjar í umhverfinu, þjóðfélagsstöðu sinni og samfélaginu.

Margrét starfar við myndlist á Íslandi og Frakklandi og spannar starfsferilinn hennar rúm 50 ár. Hún hefur haldið yfir 50 einkasýningar, tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis og verk hennar eru í eigu helstu listasafna landsins.

Ein og yfirgefin í Frakklandi

„Verkin sem ég sýni núna eru unnin í Frakklandi en ég lokaðist þar inni, ein og yfirgefin, vegna slyss og fötlunar sem var afleiðing þess, ásamt vírusógninni sem lokaði landinu og kom í veg fyrir allar ferðir.“

Margrét segist hafa fundið vel fyrir umhverfinu og öflum þess og hafði það gríðarleg áhrif á hennar sköpun.

„Frumsköpun, duldir kraftar, gerningahríð, draugar, árar, vírusar og önnur kynlaus náttúrufyrirbæri gerðu mér lífið leitt en ég fann svo vel fyrir þessum öflum á þessum skrítna tíma í einangrun og volæði. Ef til vill var ég segull á þessi náttúrufyrirbæri sem umbreyttust við fæðingu verka minna. 

Ég upplifði sterkt að dýrategundin maður væri aðeins eitt lítið fyrirbæri í náttúrunni, önnur léku lausum hala, yfirtækju og skriðu um allt manngert og ofvöxturinn fær að vera óskertur.

 Hugmyndirnar sem ásóttu mig voru sambærilegar hugmyndum við gerð eldri mynda og því er innsetning með gömlum verkum með á sýningunni. Verkum sem munaði litlu að færu forgörðum.“

Listin er lífið sjálft

„Tíminn og náttúran umbreytir, skemmir og eyðir sífellt myndum og gerir að lokum ævistarf okkar flestra að engu. Við hverfum síðan í tómið og ummyndumst í eitthvað allt annað eins og hugmyndirnar eða hin lifandi list sem er auðvitað bara lífið sjálft,“ segir Margrét um listina og lífið.

Verkin eru afrakstur verkefnisstyrkja sem Margrét hlaut vegna Covid-19 árið 2020. Menningarsjóður Reykjavíkur og Myndlistarsjóður styrktu verkefnið en styrkurinn varð til þess að Margrét hóf myndröð sem nefndist COVID-19 í vinnuferli.

„Verkefnið er í stöðugri þróun og eitt leiðir af öðru og í dag kallast vinnuferlið Óbærilegur léttleiki tilverunnar sem er upplifun mín á gerningahríðum drauga, ára, vírusa og annarra kynlausra náttúrufyrirbæra.“

Sýningin stendur til 19. ágúst næstkomandi og er opin alla virka daga.


Tengdar fréttir

Dauðagríma Napóleons setti lífið í nýtt samhengi

Í nýjasta þætti af Kúnst fáum við innsýn í hugarheim framtíðar listamanna samfélagsins við heimsókn á útskriftarsýningu myndlistar- og hönnunarnema við Listaháskóla Íslands. Rætt var við fjóra útskriftarnemendur af bæði myndlistar- og hönnunarbraut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×