Menning

„Hér munu hlutir fæðast“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Júlíanna Ósk Hafberg opnar sýningarrými síðar í dag.
Júlíanna Ósk Hafberg opnar sýningarrými síðar í dag. Aðsend

Listakonan Júlíanna Ósk Hafberg opnar svokallað pop-up stúdíó og gallerí að Bankastræti 12. Hún fagnaði þrítugs afmæli sínu í síðustu viku og í tilefni af því mun hún halda sameiginlegt afmælisteiti og opnun á galleríinu í dag frá klukkan 17:00-20:00. Blaðamaður tók púlsinn á Júlíönnu og fékk að heyra nánar frá.

„Þetta kom rosa hratt og spontant inn hjá mér,“ segir Júlíanna um aðdraganda gallerísins en hún hafði verið að leita sér að vinnustofu í ágúst.

„Geoff á Prikinu hafði samband við mig með þetta rými á Bankastræti 12, við hliðina á Prikinu. Rýmið er auðvitað bara á besta stað í bænum og ekki hægt að gera annað en að stökkva á það. Því má segja að þessi vinnustofuleit mín hafi undið skemmtilega vel upp á sig og ég hoppaði hratt til.“

Opið allan ágúst

Áður hefur Júlíanna verið með svokallað Gallerí Heima, þar sem hún setur upp listasýningu í heimahúsum hjá fólki yfir helgi, og hafði hún hugsað sér að gera slíkt hið sama í ár.

„Því var ég nú þegar í sýningar viðbragðsstöðu. Þetta verður skemmtilegur contrast við það Gallerí Heima, enda á besta stað í Bankastrætinu og verður opið hjá mér allan ágúst. Þar verð ég að brasa, vinna innan um verkin mín og taka á móti fólki.“

Lifandi rými

Júlíanna segir að hugmyndin sé að vera með eins konar lifandi vinnustofu/sýningarrými út ágúst.

„Ég ætla að reyna að vera við eins mikið og ég get ásamt því að vera að vinna að verkum í vinnslu og nýjum hugmyndum innan um þau verk sem ég á til og hef verið að vinna að undanfarið ár. Rýmið mun því breytast eftir því sem líður á með nýjum verkum og hugmyndum og vonast ég til að það verði litríkt og lifandi. Ég fæst við marga mismunandi miðla og efni og er mjög leikglöð og forvitin þegar kemur að sköpun og mun þetta rými endurspegla það. 

Þetta verður einstakt tækifæri til þess að ganga inn í sköpunarheim minn og sjá þar bæði tilbúin verk og verk að fæðast og hlakka ég til að taka á móti fólki þar og spjalla um lífið og listina. 

Öll tilbúin verk verða til sölu, sem og glæný eftirprent sem eru að koma beint úr prentsmiðjunni.“

Verslunarmannahelginni eytt í málningargallanum

Júlíanna segir að rýmið sé bæði hrátt og gamalt en hún hefur nú þegar sett sinn svip á það.

„Hér var áður úrsmiður í að ég held áratugi og verð ég að viðurkenna að ég hef aldrei gefið þessu rými mikinn gaum né komið hingað inn fyrr en nú. Það stendur til að fara í framkvæmdir á húsinu og því fékk ég mjög lausan taum og ákvað ég að heilmála loft, veggi og gólf í einkennislitunum mínum, bleikum og grænum. 

Verslunarmannahelginni var því eytt í málningargallanum með góðri bras vinkonu minni Helgu Lind Mar, og eyddi ég líka góðum part af þrítugsafmælinu mínu núna á sunnudaginn með bleika málningarbyssu við hönd.“

Lífið verður bara betra og betra

Aðspurð um hvernig sé að líta yfir farinn veg á þessum tímamótum segir Júlíanna:

„Það er mikil þakklætis tilfinning í mér að verða þrítug, því ég trúi því að lífið verði alltaf bara betra og betra eftir því sem maður vex og þroskast og lærir nýja hluti. Ef ég lít til baka er augljóst að ég hef vaxið mikið undanfarin ár og tekið margar góðar ákvarðanir sem hafa leitt mig akkúrat hingað. Fyrir þremur árum útskrifaðist ég úr leiðtoga og verkefnastjórnunarskólanum Kaospilot í Danmörku og vissi í raun ekki að ég myndi stíga svona fast inn í myndlistina eins og ég síðan gerði. 

Það hafa verið miklar sveigjur og beygjur hjá mér í leiðinni að myndlistinni, en ég er þakklát yfir því að ég er með opið og flæðandi hugarfar sem leyfir mér að taka beygjur og breyta um stefnur. Enda gerir það lífið svo spennandi, skemmtilegt og ríkulegt.“

Bleik afmæliskaka

Öll eru velkomin á opnunina sem verður á sama tíma listræn afmælisveisla.

„Í tilefni af þrítugsafmælinu mínu núna síðastliðinn sunnudag ákvað ég að slá opnuninni upp í afmælisopnun. Það verður að sjálfsögðu bleik afmæliskaka og bleikt límonaði í boði, mikil gleði og allir hjartanlega velkomnir. 

Hér munu hlutir fæðast svo það verður alltaf eitthvað nýtt að sjá í hverri heimsókn.“

Tengdar fréttir

„Hin lifandi list er auðvitað bara lífið sjálft“

Listmálarinn Margrét Jónsdóttir stendur fyrir sýningunni ÓBÆRILEGUR LÉTTLEIKI TILVERUNNAR í Gallerí Gróttu. Í list sinni er hún stöðugt að túlka það sem hún skynjar í umhverfinu, þjóðfélagsstöðu sinni og samfélaginu.

Hefur öðlast styrk, skilning og getu til þess að mæta tilfinningunum

Listakonan Júlíanna Ósk Hafberg opnar sýninguna „Feelings served; table for one“ í dag klukkan 17:00. Sýningin er haldin í Núllinu, listagalleríi neðanjarðar á Bankastræti 0. Undanfarna daga hefur Júlíanna verið í óða önn við að breyta hráu rýminu í undraheim en blaðamaður heyrði í henni hljóðið.

„Fötin eiga að passa á okkur en ekki við í fötin“

Myndlistarkonan Júlíanna Ósk Hafberg er lausnamiðuð þegar það kemur að því að endurnýta föt og leggur áherslu á að laga flíkurnar sínar ef eitthvað kemur fyrir þær, frekar en að henda þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×