Enski boltinn

Evrópu­meistarinn Par­ris til liðs við Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nikita Parris er nýjasti leikmaður Manchester United.
Nikita Parris er nýjasti leikmaður Manchester United. Jonathan Moscrop/Getty Images,

Á meðan karlalið félagsins er tilbúið að fá hvern sem er til liðs við sig þá hefur kvennalið Manchester United sótt enska landsliðskonu sem varð Evrópumeistari í sumar. 

Um helgina staðfesti Man United komu landsliðskonunnar Nikitu Parris en hún lék síðast með Arsenal. Hún skrifar undir samning til ársins 2024.

Hin 28 ára gamla Parris á að baki glæstan feril en ásamt því að leika með Arsenal hefur hún spilað með Everton, Manchester City og Lyon á ferli sínum. Ofan á það má svo bæta við 67 A-landsleikjum.

„Það er ótrúlegt að vera hér. Þetta hefur verið ótrúlegt sumar og þetta fullkomnar það endanlega. Manchester United er sögufrægt félag sem er að gera sig gildandi í WLS-deildinni og ég get ekki beðið eftir að vera hluti af liðinu sem og að ná árangri hér í framtíðinni,“ sagði framherjinn við undirskriftina.

„Ég vil hjálpa liðinu að taka skref fram á við og þroskast. Ég er ekki eini leikmaðurinn sem Man Utd sækir í sumar og sýnir það metnað félagsins. Ég er mjög ánægð og get ekki beðið eftir að hefjast handa,“ bætti Parris við.

Manchester United endaði í 4. sæti WLS-deildarinnar á síðustu leiktíð og rétt missti af Meistaradeildarsæti. Félagið ætlar sér greinilega að gera betur á komandi leiktíð en alls hefur það sótt sex leikmenn í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×