Enski boltinn

De Gea: Þetta var mér að kenna

Atli Arason skrifar
David de Gea segist bera ábyrgð á tapinu gegn Brentford.
David de Gea segist bera ábyrgð á tapinu gegn Brentford. Getty Images

David De Gea, markvörður Manchester United, tekur tapið gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni í gær á sig og segir að hann hefði átt að gera mun betur í leiknum.

De Gea bað sjálfur um að fá að fara í viðtal hjá Sky Sports eftir 4-0 tapið gegn Brentford, til að útskýra sína ábyrgð á tapinu.

„Ég verð að taka ábyrgðina, það var mér að kenna að við náðum ekki í þrjú stig. Þetta var mjög slök frammistaða hjá mér, eftir fyrstu tvö mistökin mín var mjög erfitt fyrir liðið að halda áfram að spila sinn leik. Þetta var hræðilegur dagur,“ sagði De Gea við Sky Sports.

„Ég hefði átt að verja skotið í fyrsta markinu sem þeir skoruðu, úrslitin hefðu mögulega verið önnur ef ég hefði varið það skot.“

Pelenda Da Silva skoraði fyrsta mark Brentford í leiknum. De Gea virtist ætla að verja það skot en það fór einhvern vegin í gegnum hendur hans og í netið. 

Mistök sem rekja má til De Gea skapaði einnig annað mark Brentford þegar De Gea reyndi að gefa boltann á Christian Eriksen sem var í erfiðri stöðu og tapaði boltanum undir mikilli pressu.

„Kannski verð ég að lesa leikinn betur. Ég hefði kannski átt að sparka boltanum langt fram í stað þess að spila honum stutt á Christian [Eriksen]. Við sem lið viljum spila og halda í boltann. Brentford pressaði hátt í einn á einn stöðu út um allan völl. Ég verð að geta lesið leikinn betur,“ sagði David De Gea, markvörður Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×