Enski boltinn

Arteta: Aldrei upplifað annað eins

Atli Arason skrifar
Mikel Arteta er knattspyrnustjóri Arsenal.
Mikel Arteta er knattspyrnustjóri Arsenal. EPA-EFE/Clive Brunskill

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hrósaði stuðningsmönnum liðsins í hástert eftir 4-2 sigur Arsenal á Leicester í ensku úrvalsdeildinni í gær. Leikurinn var fyrsti leikur Arsenal á heimavelli á þessu leiktímabili.

William Saliba, leikmaður Arsenal, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í leiknum. Í kjölfarið marksins stóðu stór hluti stuðningsmanna Arsenal upp úr sætum sínum og klöppuðu fyrir Saliba og sungu nafn hans til að sýna varnarmanninum unga stuðning.

„Á mínum ferli hef ég aldrei upplifað annað eins. Þetta sýnir þá tengingu sem við höfum við stuðningsmennina. Þeir eru til staðar fyrir þann sem er að fara í gegnum erfiða lífsreynslu. Ég er viss um að þetta atvik jók sjálfstraustið hjá Willy [Saliba] miðað við hversu vel hann spilaði eftir sjálfsmarkið,“ sagði Arteta

Andrúmsloftið hjá Arsenal er töluvert breytt frá því sem það var fyrir nokkrum árum þegar stuðningsmenn liðsins voru duglegri að snúast gegn liðinu. Núna virðist allir vera að róa í sömu átt.

„Stuðningsmennirnir voru frábærir frá fyrstu mínútu. Maður finnur fyrir því að þeir styðja við bakið á okkur. Það veitir liðinu aukna orku. Allir leikmennirnir tala um það, þeir geta ekki beðið eftir því að spila fyrir framan þessa stuðningsmenn,“ sagði knattspyrnustjórinn Mikel Arteta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×