Fjórhjól njóta alltaf aukinna vinsælda og sér maður ólíklegasta fólk á slíkum farartækjum. Í Grundarfirði er mikil fjórhjólamenning en þar eru það konurnar, sem eru allt í öllu þegar fjórhjólin eru annars vegar. Hópurinn kallar sig „Lísurnar“ en þær eru duglegar að fara út og hjóla saman.
„Þetta eru aðallega kerlingar að keyra fjórhjól. Það er svo ofboðslega gaman að keyra fjórhjól og við stofnuðum þennan klúbb. Við erum óstöðvandi, það er alveg hægt að segja það. Við erum á öllum aldrei og úr öllum geiranum í atvinnulífinu. Einu skilyrðin eru að þú þarft að vera kona til að komast í klúbbinn,“ segir Lísa Ásgeirsdóttir, formaður „Lísanna“.
En af hverju fá karlarnir ekki að vera með?
„Þeir eru bara ekki nógu skemmtilegir,“ segir Lísa hlæjandi.
„Lísurnar“ fara aðallega á hjólunum sínum í kringum Grundarfjörð og stundum fara þær í helgarferðir upp á hálendið. Markmið hópsins númer eitt, tvö og þrjú er gleði og að hafa gaman saman.
