Enski boltinn

West Ham kaupir þýskan lands­liðs­mann af PSG

Atli Arason skrifar
Kehrer með landsleik með þýska landsliðinu í Þjóðardeildinni í júní
Kehrer með landsleik með þýska landsliðinu í Þjóðardeildinni í júní Getty Images

West Ham staðfesti í dag félagaskipti Thilo Kehrer frá franska félaginu PSG. Leikmaðurinn kemur til London fyrir rúmar 10 milljón punda.

Kaupverðið getur þó hækkað í 13 milljónir punda með árangurstengdum greiðslum en West Ham bráðvantaði nýjan miðvörð eftir Nayef Aguerd, miðvörðurinn sem West Ham keypti í sumar fyrir 30 milljónir punda, varð fyrir alvarlegum ökklameiðslum á undirbúningstímabilinu og þarf að fara í aðgerð.

Kurt Zouma er eini náttúrulegi miðvörður West Ham sem er heill heilsu í dag en bæði Craig Dawson og Angelo Ogbonna eru á meiðslalistanum ásamt Aguerd. West Ham hafði áður selt miðvörðinn Issa Diop til Fulham fyrr í sumar.

Í fyrstu tveimur leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni hefur því bakvörðurinn Ben Johnson þurft að spila í miðverði en báðir leikirnir töpuðust, 0-2 tap á heimavelli gegn Manchester City í fyrstu umferð og 1-0 tap á útivelli gegn nýliðum Nottingham Forest. David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham varð því að bregðast við og sótti Kehrer til að styrkja varnarlínu sína.

Er leikmaðurinn sjöttu kaup West Ham í félagaskiptaglugganum í sumar.

Kehrer 25 ára gamall Þjóðverji sem spilaði fyrir Schalke í heimalandinu áður en PSG keypti hann fyrir 31 milljón punda árið 2018. Kehrer á 20 leiki að baki fyrir þýska landsliðið.

Næsti leikur West Ham er gegn danska liðinu Viborg í forkeppni Sambandsdeildarinnar annað kvöld og líklegt þykir að Kehrer fari beint í byrjunarlið West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×