Enski boltinn

Arsenal fær sænska lands­liðs­konu frá Juventus

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lina Hurtig var hluti af sænska liðinu sem tapaði gegn Englandi í undanúrslitum EM. Nú mun hún spila á Englandi.
Lina Hurtig var hluti af sænska liðinu sem tapaði gegn Englandi í undanúrslitum EM. Nú mun hún spila á Englandi. EPA-EFE/Peter Powell

Lina Hurtig verður ekki samherji Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Juventus í vetur þar sem hún hefur ákveðið að söðla um og semja við Arsenal.

Skytturnar enduðu í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð eftir harða baráttu við Chelsea. Liðið endursamdi við Vivianne Miedema en vantaði frekari vopn fram á við, sérstaklega eftir að Nikita Parris fór til Manchester United.

Í dag var staðfest að hin 26 ára Lina Hurtig væri orðin Skytta. Hún gekk í raðir Juventus árið 2020 og varð tvívegis Ítalíumeistari. Þar áður var hún sænskur meistari og því ljóst að hún stefnir á að bæta Englandi á listann yfir lönd sem hún hefur orðið meistari í.

„Mér líður frábærlega, ég er mjög ánægð með að vera hér. Ég hef alltaf viljað spila á Englandi og hef alltaf haft áhuga á enskum fótbolta, það er því mjög spennandi fyrir mig að vera hér. Ég veit að Arsenal er frábært félag með mikið af góðum leikmönnum og mikil gæði. Ég held að ég muni njóta mín hér,“ sagði Hurtig við undirskriftina.

Hurtig hefur spilað 58 A-landsleiki og skorað í þeim 19 mörk. Hún var hluti af liði Svíþjóðar sem fór alla leið í undanúrslit á Evrópumótinu í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×