Enski boltinn

Dag­ný í tíuna líkt og upp­á­halds­leik­maður hennar þegar hún var yngri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný er komin í tíuna líkt og Di Canio á sínum tíma.
Dagný er komin í tíuna líkt og Di Canio á sínum tíma. West Ham United/Getty Images

Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir hefur spilað í treyju númer 32 síðan hún gekk í raðir enska úrvalsdeildarliðsins West Ham United. Hún hefur ákveðið að breyta til og mun spila í tíunni í vetur en hennar uppáhaldsleikmaður er hún var yngri lék alltaf í treyju númer 10.

Dagný gekk í raðir West Ham þann 28. janúar 2021. Þá var treyja númer 10 einfaldlega ekki laus, hefði hún verið það hefði íslenska landsliðskonan eflaust stokkið á hana en Dagný spilar einnig í treyju númer 10 með íslenska landsliðinu.

West Ham tilkynnti nýverið á samfélagsmiðlum sínum að Dagný myndi leika í 10unni í vetur. Ekki nóg með það heldur var hún beðin um að útskýra af hverju. Ástæðan var á endanum frekar einföld.

„Ég hef ákveðið að spila númer 10 í vetur, það hefur alltaf verið mín tala. Þegar ég var að alast upp og spilaði bara með strákum þá leyfðu þeir mér alltaf að vera númer 10. Afmælið mitt er 10. ágúst svo mér líkaði alltaf vel við töluna.“

„Ég var framherji á mínum yngri árum og Paolo Di Canio var einn af mínum uppáhalds leikmönnum og hann spilaði alltaf í treyju númer 10. Svo nú þegar treyjunúmerið stóð til boða var engin spurning, ég vildi spila í treyju númer 10. Ég er númer 10 í landsliðinu líka svo ég er bara mjög ánægð með að fá sama númer hér hjá West Ham.“

Enska úrvalsdeildin hefst 11. september og West Ham gæti vart byrjað á erfiðari leik en liðið mætir Englandsmeisturum Chelsea á útivelli í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×