Fótbolti

Karólína í raun verið meidd í heilt ár

Sindri Sverrisson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir missir af afar mikilvægum leikjum í undankeppni HM eftir að hafa blómstrað á EM í Englandi í júlí.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir missir af afar mikilvægum leikjum í undankeppni HM eftir að hafa blómstrað á EM í Englandi í júlí. Vísir/Vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta varð fyrir miklu áfalli í aðdraganda leikjanna mikilvægu við Hvíta-Rússland og Holland þegar ljóst varð að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, einn besti leikmaður liðsins á EM, yrði ekki með vegna meiðsla.

Þorsteinn Halldórsson sagði frá meiðslum Karólínu á blaðamannafundi í dag þar sem hann kynnti landsliðshóp sinn fyrir leikina tvo, sem eru þeir síðustu í undankeppni HM. Sigur gegn Hvíta-Rússlandi og jafntefli gegn Hollandi myndi duga Íslandi til að komast í lokakeppnina, en því þarf Ísland nú að ná án Karólínu.

„Karólína er meidd og er núna að fara í endurhæfingu og að vinna í sínum meiðslum,“ sagði Þorsteinn en Karólína mun sinna sinni endurhæfingu í Þýskalandi hjá félagi sínu Bayern München. 

Þrátt fyrir að Karólína hafi farið á kostum á EM hefur hún lengi glímt við meiðslin, sem eru aftan í læri.

„Þessi meiðsli hafa verið að plaga hana í eitt ár raunverulega. Það hefur ekki tekist að vinna með þetta með því að láta hana spila og æfa áfram, og það var tekin ákvörðun í síðustu viku um að það þyrfti að gera þetta ítarlegar og stoppa að hún spili fótbolta á meðan. Þetta er nokkuð sem Bayern og Karólína töldu að þyrfti að gera,“ sagði Þorsteinn.

Aðspurður um hve lengi Karólína yrði frá keppni sagði Þorsteinn að unnið væri eftir sex vikna áætlun og að staðan yrði svo metin að nýju að þeim tíma loknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×