Ólína er með BA-gráðu í íslenskum bókmenntum og heimspeki frá Háskóla Íslands. Þá er hún með magisterpróf og doktorspróf í íslenskum bókmenntum og þjóðfræðum en doktorsverkefni sitt byggði hún á þjóðfræðilegri og bókmenntafræðilegri rannsókn á galdratrú í málskjölum og munnmælum 17. aldar.
Ólína sat á þingi fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi á árunum 2009 til 2013 og 2015 til 2016. Þar var hún meðal annars formaður umhverfisnefndar, varaformaður atvinnuveganefndar, forseti Vestnorrænna ráðsins og varaforseti Norðurlandaráðs. Þá var hún borgarfulltrúi Nýs vettvangs á árunum 1990 til 1994.