Gítarinn samfélagsþjónusta
„Ég er sannfærður um að öll sem spila á gítar tengi mjög hressilega við þetta lag. Það hvílir auðvitað á okkur einhverskonar skylda eða krafa um þá samfélagsþjónustu að spila á gítarinn í partýjum og vera skemmtileg. Og ég veit að flestum gítarleikurum þykir alveg gaman að láta ljós sitt skína á mannamótum,“ segir Sváfnir og bætir við: „Auðvitað vill maður hafa mikið um það að segja hvað er sungið og ég fæ til dæmis algera mótþróaþrjóskuröskun þegar farið er að dreifa ljósrituðum textum á alla í partýinu, þá líður mér bara eins og einhverri vél.“
Innri baráttan í spaugilegu ljósi
Sváfnir hefur varið hluta af sumrinu í Stúdíó Paradís til að hljóðrita efni á væntanlega plötu sem kemur út fyrir næstu jól.
„Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef verið beðinn um að kippa gítarnum með þegar mér er boðið á mannfagnaði og viðburði.
Mér þykir alltaf vænt um það, mér finnst nefnilega gaman að spila á gítar og syngja með skemmtilegu fólki. Á tímabili þvældist þetta samt fyrir mér. Mér leið eins og það væru allir orðnir leiðir á þessu gutli. Svo í stað þess að svara: „Já auðvitað kippi ég gítarnum með“, þá var ég farinn að tafsa einhverja vitleysu. „Nei er það, eru ekki allir búnir að fá nóg af þessu glamri í mér?“ Lagið Gítarinn fjallar um þessa innri baráttu og er tilraun til þess að sjá hana í spaugilegu ljósi.“
Skorar á alla trúbadora landsins
Lagið hefur verið í bígerð í rúmt ár.
„Það spaugilega var að þegar ég var nýbúinn að skrifa textann þá hringdi vinnufélagi minn í mig og spurði hvort ég væri ekki í stuði til þess að kippa gítarnum með mér á fyrirhugaðan starfsdag sem ætti að enda með smá fjöri.
Ég hló mig út af stólnum, en tók að sjálfsögðu gítarinn með.“

Sváfnir segir lagið vera í karabískum anda.
„Ég fékk meðal annars gamlan félaga frá New Orleans sem ég kynntist í Danmörku til þess að spila á Steel drums og sá hljómur fullkomnaði þessa stemningu. Það er hópur af góðu fólki sem er að vinna plötuna með mér og í laginu eru átta hljóðfæraleikarar. Það íróníska er að það er örugglega alveg glatað að spila þetta lag einn á gítar. En ég skora á alla trúbadora landsins að gefa því séns.“
Gítarinn er annað lagið sem fer í spilun af væntanlegri plötu en fyrra lagið ber nafnið Allt of gamall og kom út í vor við góðar viðtökur. Sváfnir hefur verið nokkuð iðinn við að spila í sumar og stefnir á að halda útgáfutónleika fyrir jólin þar sem hann mun spila nýju plötuna ásamt því besta af fyrri plötum sínum.