Hollensku miðlarnir De Toekomst og De Telegraaf greina báðir frá því að Antony hafi ekki mætt á æfingu í gær, aðeins degi eftir að Ajax á að hafa hafnað 80 milljón evra boði frá United.
Antony leikur ýmist sem hægri eða vinstri kantmaður og er ten Hag sagður spenntur fyrir að fá hann til Manchester-borgar. Ten Hag var þjálfari Antonys frá 2020 þar til í sumar þegar hann hætti með Ajax til að taka við United.
Greint er frá því að Manchester United undirbúi nú 100 milljón evra tilboð, rúmlega 14 milljarða króna, í þann brasilíska í von um að freista hollenska félagsins.
Antony yrði annar leikmaðurinn sem ten Hag fær til United frá Ajax en argentínski miðvörðurinn Lisandro Martínez samdi fyrr í sumar. Þá hefur United einnig fest kaup á Christian Eriksen, sem lék áður með Ajax, og Hollendingnum Tyrell Malacia frá Feyenoord í Hollandi.
Aðeins á þá eftir að ganga frá örfáum smáatriðum í kaupum félagsins á landa Antonys, Casemiro, sem kemur frá Real Madríd á Spáni fyrir 70 milljónir evra, tæplega 10 milljarða króna.
Manchester United hefur farið agalega af stað í ensku úrvalsdeildinni en liðið situr á botni deildarinnar án stiga eftir töp fyrir Brighton og Brentford í fyrstu tveimur leikjunum. Liðið mætir Liverpool á mánudagskvöldið.