Enski boltinn

Ron­aldo hættur við að yfir­gefa Manchester United eftir komu Ca­semiro

Atli Arason skrifar
Ronaldo og Casemiro náðu vel saman hjá Real Madrid.
Ronaldo og Casemiro náðu vel saman hjá Real Madrid. Getty Images

Cristiano Ronaldo bað um að fá að yfirgefa Manchester United fyrr í sumar en er nú hættur við þau áform eftir að félagið tryggði sér þjónustu Casemiro frá Real Madrid.

Breskir fjölmiðlar greindu frá U-beygju Ronaldo um helgina. Ronaldo hafði áður lýst yfir vilja sínum að spila áfram í Meistaradeild Evrópu eftir að Manchester United mistókst að tryggja sér þátttökurétt í keppninni þegar að liðið endaði í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta leiktímabili.

Jorge Mendes, umboðsmaður Ronaldo, hefur í sumar reynt að finna nýtt félag fyrir Ronaldo en hann hefur meðal annars fundað með Bayern München, Atletio Madrid og Chelsea, án þess að finna lausn fyrir Ronaldo.

Erik ten Hag tók við sem knattspyrnustjóri Manchester United í upphafi sumars. Hann hafði, þrátt fyrir vilja Ronaldo að fara frá félaginu, gefið út að Ronaldo yrði áfram hluti af áformum hans í Manchester.

Portúgalski framherjinn virðist nú hafa snúist hugur um að yfirgefa félagið eftir að Manchester United tryggði sér þjónustu Casemiro. Leikmennirnir tveir spiluðu báðir hjá Real Madrid árin 2013-2018 en þar unnu þeir Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum saman og spænsku úrvalsdeildina einu sinni.

Manchester United vann óvæntan 2-1 sigur á Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær, án aðstoðar Ronaldo. Portúgalinn byrjaði leikinn á meðal varamanna en kom inn á völlinn á 86. mínútu.


Tengdar fréttir

Fyrsti sigur Erik ten Hag kom gegn Liverpool

Manchester United vann 2-1 sigur gegn erkifjendunum í Liverpool í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni en þetta var aðeins annar sigurleikur United á Liverpool í síðustu 13 tilraunum.

Stuðningsmenn Atletico mótmæla hugsanlegri komu Ronaldo

Cristiano Ronaldo er sagður vera á leið frá Manchester United og hefur verið orðaður við hin ýmsu lið víðs vegar um Evrópu í allt sumar. Nú síðast var hann orðaður við Atletico Madrid en stuðningsmenn Atletico tóku þó ekki vel í þann orðróm og blésu til mótmæla á samfélagsmiðlum.

Man Utd segir Ron­aldo ekki til sölu

Cristiano Ronaldo, hinn 37 ára gamli framherji Manchester United, er ekki til sölu ef marka má nýjustu fréttir frá Englandi. Ronaldo hafði óskað eftir sölu frá félaginu vegna metnaðarleysis á félagaskiptamarkaðnum. Þá komst Man United ekki í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×