Enski boltinn

Á­kvað að vera á­­fram hjá Frankfurt og Man Utd snýr sér að vara­vara­mark­verði New­­cast­­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin Dúbravka gæti verið á leið til Manchester United.
Martin Dúbravka gæti verið á leið til Manchester United. EPA-EFE/NEIL HALL

Leit enska knattspyrnuliðsins Manchester United að samkeppni fyrir David De Gea, aðalmarkvörð liðsins, gengur vægast sagt brösuglega. Martin Dúbravka er næsta skotmark eftir að Kevin Trapp ákvað að vera áfram hjá Eintracht Frankfurt.

Ef þú ert yfir þrítugt og hefur sett á þig markmannshanska er líklegt að Man United hafi áhuga á því að fá þig í sínar raðir. Síðan Dean Henderson var lánaður til nýliða Nottingham Forest hefur Man Utd leitað að markverði til að veita De Gea. Það er greinilegt að hinn 36 ára gamli Tom Heaton er aðallega séður sem þriðji markvörður.

Eftir að íhuga Yann Sommer, aðalmarkvörð Gladbach og Sviss, var ákveðið að athuga hvort Þjóðverjinn Kevin Trapp vildi koma. Sá ákvað að afþakka pent enda aðeins 32 ára gamall og ekki tilbúinn að verða varaskeifa.

Ákváð Man United þá að snúa sér að manni með reynslu úr ensku úrvalsdeildinni sem og af stórmótum en hinn 33 ára gamli Dúbravka varði mark Slóvakíu á Evrópumótinu sumarið 2021. Hann hefur spilað á Englandi síðan 2018 en hann gekk upphaflega í raðir Newcastle United á láni áður en félagið ákvað að festa kaup á honum. 

Síðan þá hefur hann spilað alls 130 leiki fyrir félagið í öllum keppnum en undanfarin tvö tímabil hefur hann ekki átt fast sæti í liðinu. Hann hóf síðasta tímabil sem aðalmarkvörður en missti svo sætið þegar leið á tímabilið. 

Í sumar keypti Newcastle enska markvörðinn Nick Pope frá Burnley og ljóst var að dagar Dúbravka sem aðalmarkvarðar voru taldir. Hann hefur verið á bekknum í öllum þremur leikjum liðsins í úrvalsdeildinni en var hvergi sjáanlegur er liðið vann Tranmere Rovers í deildarbikarnum á miðvikudag.

Eddie Howe, þjálfari Newcastle, sagði að Dúbravka hefði verið veikur og ekki leikfær. The Athletic hefur staðfest að Man United hafi beðið Newcastle um að fá Dúbravka á láni en ekki kemur fram hvort Newcastle hafi svarað boðinu.

Erik Ten Hag er enn á höttunum á eftir leikmönnum og er Antony, vængmaður Ajax, þar efstu á blaði. Þá hefur félagið áhuga á Cody Gakpo, leikmanni PSV, og svo virðist sem Marco Asensio gæti farið á Old Trafford ef marka á fréttaflutning dagsins.

Það er allavega ljóst að það á mikið eftir að gerast á skrifstofu Man United næstu daga og vonandi er kaffivélin í lagi þar sem það verður eflaust lítið sofið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×