United vann sinn fyrsta útisigur í rúmlega hálft ár

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bruno Fernandes skoraði eina mark leiksins í dag.
Bruno Fernandes skoraði eina mark leiksins í dag. Ash Donelon/Manchester United via Getty Images

Bruno Fernandes skoraði eina mark leiksins er Manchester United vann langþráðan 0-1 útisigur gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

United vann seinast útileik í ensku úrvalsdeildinni þann 20. febrúar á þessu ári og því rúmlega hálft ár frá því að liðið fagnaði sigri annarsstaðar en á Old Trafford, eða 189 dagar til að vera nákvæmur. Síðan þá hafði liðið tapað sjö útileikjum í röð.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af í fyrri hálfleik og fengu bæði lið tækifæri til að skora. Heimamenn í Southampton voru líklegri á lokamínútum hálfleiksins, en staðan var markalaus þegar gengið var til búningsherbergja.

Heimamenn í Southampton voru svo sterkari aðilinn í síðari hálfleik og virtust líklegri til að verða fyrri til að brjóta ísinn. Það var þó Bruno Fernandes sem kom gestunum yfir á 55. mínútu með frábærri afgreiðslu eftir fyrirgjöf frá Diogo Dalot.

Það sem eftir lifði leiks sóttu heimamenn stíft. Þeir fengu ákjósanleg færi til að jafna leikinn, en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan varð 0-1 sigur United.

Þetta var annar deildarsigur United í röð og liðið er nú með sex stig í sjötta sæti deildarinnar þegar liðið hefur leikið fjóra leiki. Southampton situr hins vegar í 13. sæti með fjögur stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira