Erlent

Björgun inni­lokaðra námu­manna gæti tekið ellefu mánuði

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Tilraunir mexíkóskra yfirvalda til að bjarga tíu námumönnum sem eru fastir ofan í Pinabete-námu hafa gengið brösulega.
Tilraunir mexíkóskra yfirvalda til að bjarga tíu námumönnum sem eru fastir ofan í Pinabete-námu hafa gengið brösulega. Getty/Antonio Ojeda

Leit að tíu námumönnum sem eru fastir ofan í kolanámu í Mexíkó gæti tekið á bilinu sex til ellefu mánuði, segja yfirvöld við ættingja mannanna. 

Þann 3. ágúst síðastliðinn féll saman veggur í námugöngum í Pinabete-námu með þeim afleiðingum að það flæddi inn í náminu. Fimm námumönnum tókst að sleppa út en tíu samstarfsmenn þeirra eru enn fastir í námunni án sambands við umheiminn.

Hátt vatnsborð inni í stokkum á sextíu metra dýpi í námunni hefur erfiðað björgunaraðgerðum yfirvalda.

Juani Cabriales, systir eins námumannsins, sagði við fréttastofuna AFP að ættingjum mannanna hefði verið tjáð að það gæti tekið á bilinu sex til ellefu mánuði að koma mönnunum út. Ríkisstjórnin hefur ekki enn gefið út hvernig hún hyggist koma mönnunum út en hingað til hafa björgunaraðgerðir gengið brösuglega.

Fyrir um tveimur vikum, var kaf-dróni með myndavél sendur ofan í einn af stokkum námunnar en hann dreif ekki niður til mannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×