Arsenal endurheimti toppsætið

Atli Arason skrifar
Gabriel skoraði sigurmarkið, eftir að hafa gefið Fulham fyrsta mark leiksins.
Gabriel skoraði sigurmarkið, eftir að hafa gefið Fulham fyrsta mark leiksins. Getty Images

Í fyrri hálfleik var leikurinn meira og minna einstefna í átt að marki Fulham en heimamönnum tókst ekki að nýta sér yfirburði sína og leikurinn var enn þá markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja í leikhlé.

Síðari hálfleikur var þó ekki nema tíu mínútna gamall þegar Fulham refsaði Arsenal fyrir að fara ekki betur með marktækifæri sín í fyrri hálfleik. Aleksandar Mitrovic kom gestunum þá í forystu en Mitrovic rændi boltanum af Gabriel, varnarmanni Arsenal, inn í vítateig heimamanna og tókst að koma boltanum í mark Arsenal í kjölfarið.

Norski miðjumaðurinn Martin Ødegaard náði að jafna leikinn á 64. mínútu en Ødegaard fékk þá boltann fyrir utan vítateig Fulham eftir undirbúning Bukayo Saka. Ødegaard hleypir skotinu af en boltinn fer af varnarmanni Fulham og þaðan í netið og allt orðið jafnt á ný.

Á 86. mínútu bætir Gabriel upp fyrir mistök sín fyrr í leiknum þegar hann kom boltanum í mark Fulham af stuttu færi. Arsenal átti þá hornspyrnu sem Bernd Leno, markvörður Fulham og fyrrum markvörður Arsenal, náði ekki að halda. Leno missti knöttinn úr höndunum á sínum gamla heimavelli og beint í lappir Gabriel sem skilaði boltanum í netið og tryggði Arsenal sigurinn.

Með sigrinum fer Arsenal aftur á topp deildarinnar en liðið verður eina liðið með 100% árangur í ensku úrvalsdeildinni eftir fjórar umferðir. Arsenal er með tveggja stiga forskot á Manchester City og Brighton. Fulham er hins vegar í 11. sæti með fimm stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira