Tengingar
„Þessi sýning er svolítið þannig að hún snýst um tengingu við bæði náttúruna hér á jörðinni en líka með kosmiska tengingu út í endalausan geiminn sem við erum bara pínulítill partur af,“ segir Julia.
Henni þykir mikilvægt að sýna þakklæti fyrir allt sem við höfum í náttúrunni. „Við erum á góðri leið með að eyðileggja fyrir okkur sjálfum. Að mála fyrir þessa sýningu var minn flótti frá því að hugsa um allt það slæma sem við erum að gera við plánetuna.
Ég vildi ná að fanga þessi augnablik sem snúast bara um að njóta og vera þakklát.“
Alltaf verið málandi
Listsköpun heillaði Juliu frá ungum aldri.
„Ég er búin að mála frá því að ég man eftir en ég byrjaði þó að taka sjálfri mér og því sem ég geri alvarlega fyrir kannski svona tólf árum síðan, þó ég hafi enga formlega menntun í listinni.“
Nýleg verkefni Juliu eru meðal annars The Art of Self Care, sem er listrænn verkefni frá Nottingham, styrkt af Arts Council England.
„Ég er einn af þremur listamönnum í því og ég hlakka til að fara á sýningu í tengslum við það í byrjun árs 2023. Nú í september fer ég svo til Svíþjóðar að taka þátt í Konstnatten, eða Listanóttinni, ásamt fullt af skapandi fólki. Ég er alltaf opin fyrir alls konar verkefnum.“
INRE GRÖNSKA er fyrsta einkasýning Juliu og er jafnframt sölusýning. Hún stendur til 3. september næstkomandi en Julia stefnir á fleiri einkasýningar í framtíðinni.
„Draumurinn er að hætta að vinna í þjónustustarfi, eins og ég hef gert í tæp tuttugu ár, og vinna bara með eitthvað listrænt. En þangað til þá er Vínstúkan klárlega besti vinnustaðurinn,“ segir Julia að lokum.