Enski boltinn

Chelsea riftir samningi Barkley

Atli Arason skrifar
Ross Barkley fagnar marki sem hann skoraði gegn Watford í lokaumferð síðasta tímabils í ensku úrvalsdeildinni.
Ross Barkley fagnar marki sem hann skoraði gegn Watford í lokaumferð síðasta tímabils í ensku úrvalsdeildinni. Getty Images

Ross Barkley og Chelsea hafa náð sameiginlegu samkomulagi um starfslok leikmannsins hjá Chelsea og mun hann yfirgefa félagið strax í dag.

Barkley kom til Chelsea frá Everton í janúar 2018. Barkley lék 100 leiki fyrir Chelsea og skoraði í þeim 12 mörk en leikmaðurinn hefur ekkert spilað með Chelsea á þessu tímabili. 

Síðasti leikur hans fyrir Chelsea var gegn Watford í lokaumferð síðasta tímabils en síðustu tvö ár hefur leikmaðurinn einungis spilað 215 mínútur fyrir Chelsea. Barkley eyddi tímabilinu 2020/21 á láni hjá Aston Villa þar sem hann þótti standa sig vel.

„Við viljum þakka Ross fyrir framlag hans til Chelsea og við óskum honum alls hins besta í framhaldinu,“ segir í tilkynningu Chelsea

Hjá Chelsea fékk Barkley um 200 þúsund pund í vikulaun sem jafngildir rúmum 33 milljónum íslenskra króna. Leikmaðurinn átti eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea áður en honum var rift í dag. 

Barkley er nú frjálst að semja við önnur lið og reyna að koma ferli sínum aftur af stað en leikmaðurinn hefur leikið 33 landsleiki fyrir England og var í landsliðshópnum á HM 2014 og EM 2016 en hefur ekki leikið landsleik síðan í október 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×