Erlent

Fimm­tán látnir í á­tökum í Bagdad

Atli Ísleifsson skrifar
Átökin hafa að stórum hluta farið fram nærri „græna svæðinu“ svokallaða þar sem fjölda stjórnarbygginga og erlendra sendiráða er að finna.
Átökin hafa að stórum hluta farið fram nærri „græna svæðinu“ svokallaða þar sem fjölda stjórnarbygginga og erlendra sendiráða er að finna. AP

Að minnsta kosti fimmtán eru látnir eftir átök írakskra öryggissveita og stuðningsmanna valdamikils sjíaklerks í höfuðborginni Bagdad. Átökin blossuðu upp eftir að klerkurinn, Moqtada al-Sadr, tilkynnti að hann væri hættur í stjórnmálum.

BBC hefur eftir talsmönnum yfirvalda að auk þeirra sem hafa látist í átökum hafi á fjórða hundruð manna særst eftir að stuðningsmenn al-Sadr réðust á forsetahöll landsins.

Bandalag flokka, sem hafa stutt al-Sadr, tryggðu sér flest þingsæti í kosningunum í október á síðasta ári, en klerkurinn hefur neitað að semja um myndun ríkisstjórnar við aðra hópa sjía á þinginu sem njóta stuðnings Íransstjórnar. Sökum þessa hefur ríkt pattstaða í írökskum stjórnmálum síðasta tæpa árið.

Sjíaklerkurinn Moqtada al-Sadr segist hættur í stjórnmálum.AP

Fréttaskýrendur segja að um sé að ræða einhverjar verstu óeirðir í Bagdad í nokkur ár.

Átökin hafa að stórum hluta farið fram nærri „græna svæðinu“ svokallaða þar sem fjölda stjórnarbygginga og erlendra sendiráða er að finna. Þannig neyddust starfsmenn hollenska sendiráðsins að flýja til þýska sendiráðsins vegna átakanna á götum úti.

Stjórnvöld í Íran hafa tekið ákvörðun um að loka landamærunum að Írak vegna átakanna og þá hafa stjórnvöld í Kúveit hvatt ríkisborgara sína til að yfirgefa Írak sem fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×