Albumm

Einangrun og einmanaleiki sem fangar fegurðina

Steinar Fjeldsted skrifar
Ljósmynd: Anna Maggý. 
Ljósmynd: Anna Maggý. 

Í dag gefur Árný Margrét út lagið „world is between us" af væntanlegri frumraun í fullri lengd, plötunni they only talk about the weather.

Laginu fylgir myndband sem Erlendur Sveinsson leikstýrir og er myndbandið unnið í samstarfi við Icelandair. Myndbandið er tekið upp á vestfjörðum, á Ísafirði og nágrenni, og sýnir íslenska vetrarstemningu eins og hún getur verið - bæði falleg og nöturleg.

Um myndbandið segir Árný Margrét: „Við tókum upp myndbandið í heimabæ mínum að vetrarlagi. Við fengum allar tegundir af veðri, sem við reyndar bjuggust við og vildum sýna. Myndbandið sýnir einangrun og einmanaleika en nær um leið að fanga fegurðina í því. Það var frábært að vinna með Erlendi að þessu, teymið var fyrsta flokks og við skemmtum okkur vel. Ég vona að fólk líki eins vel við myndbandið og okkur."

Í febrúar sl. gaf Árný Margrét út EP-plötuna Intertwined og í júlí kom út lagið Cold Aired Breeze sem var fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu. Undanfarna mánuði hefur Árný Margrét síðan komið fram á tónleikum í Bandaríkjunum og Evrópu. Í júlí kom hún m.a. fram á hinni goðsagnakenndu Newport Folk Festival og hitaði svo upp fyrir Blake Mills ásamt Pino Palladino á fernum tónleikum í Chicago, New York og Washington DC. Í nóvember mun Árný Margrét koma fram á Iceland Airwaves.

Á örstuttum tíma hefur hins vestfirska Árný Margrét öðlast talsverða reynslu í hinum alþjóðlega tónlistar heimi. Hún hefur komið sér upp öflugu teymi af samstarfsaðilum, m.a. breska útgáfufyrirtækinu One Little Independent og bókunar fyrirtækjunum ATC Live í Evrópu og High Road Touring í Norður-Ameríku. Hún starfar náið með upptökustjóranum og tónlistarmanninum Guðmundi Kristni Jónssyni sem hefur átt stóran þátt í velgengni Ásgeirs (Trausta) en bæði EP-plata og hin væntanlega plata Árnýjar Margrétar eru teknar upp í hljóðveri Guðmundar Kristins, Hljóðrita í Hafnarfirði.

Þessi grein birtist fyrst á Albumm.is. Albumm var stofnaður árið 2014 og fjallar um íslenska tónlist og menningu frá öllum hliðum. Hægt er að hafa samband með því að senda póst á albumm@albumm.is.








×