Sýningarröð
Sýningin er sú fyrsta í röð sýninga í sýningarrými Listvals þar sem settar verða upp bæði einka- og samsýningar, en rýmið hentar einstaklega vel fyrir sýningar að sögn Daríu Sól Andrews, sýningarstjóra hjá Listval.
Listval hefur frá upphafi lagt áherslu á að miðla myndlist með einum eða öðrum hætti en megin starfsemi gallerísins er á fyrstu hæð í Hörpu þar sem íslensk samtímamyndlist er til sýnis og sölu.
„Okkar megin starfsemi mun áfram vera í Hörpu en sýningarrýmið á Granda vettvangur einstaka einka- og samsýninga með áherslu á ný verk,“ segir í fréttatilkynningu frá þeim.
Listræn samvinna
Á þessari fyrstu sýningu Listvals á Granda sameinast þær Dóra Emilsdóttir og Kristín Gunnlaugsdóttir í listrænni samvinnu undir heitinu doubletrouble en báðar hafa þær unnið að myndlist frá námsárunum í MHÍ, þar sem vinátta þeirra hófst. Í upphafi árs 2020, í byrjun Covid faraldursins, ákváðu þær að hefja samstarf í málun portrettmynda, þar sem ein byrjaði og hin tæki við. Báðar væru þær með þeim hætti höfundar verkanna.
„Nafnið doubletrouble kemur ekki á óvart sem nafn á tvíeykinu þar sem léttleiki og húmor er einkennandi fyrir bæði vináttu og samstarf þessara vinkvenna.
Gagnrýni og kröfur á listræna útkomu án málamiðlana er sú sama hjá báðum og byggir á trausti áralangrar vináttu.
Portrettin urðu alls 129,“ segir í tilkynningunni.
Sýningin opnar í dag, föstudaginn 2. september, og er opið frá 17:00-19:00 í Listval á Granda, Hólmaslóð 6 en hún stendur til 8. október næstkomandi. Þá verður opið á föstudögum og laugardögum frá klukkan 13:00-16:00 og eftir pöntun.