Enski boltinn

Fær níuna sem hafði verið hengd upp í rjáfur eftir and­lát föður hans

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jay Stansfield ásamt Matt Taylor, þjálfara Exeter City.
Jay Stansfield ásamt Matt Taylor, þjálfara Exeter City. Twitter@OfficialECFC

Jay Stansfield mun klæðast treyju númer 9 hjá Exeter City í vetur en Stansfield kemur til liðsins á láni frá úrvalsdeildarliði Fulham. Það væri ef til ekki frásögu færandi nema fyrir þá staðreynd að faðir hans lék í treyju númer 9 hjá félaginu er hann lést langt fyrir aldur fram.

Jay Stansfield er 19 ára gamall framherji sem er í dag á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu Fulham. Segja má að Stanfsfield sé að snúa heim en fótboltaferill hans hófst hjá Exeter City.

Þá má segja að hann verði ávallt bundinn félaginu ákveðnum tilfinningaböndum þar sem faðir hans, Adam Stansfield, var leikmaður liðsins þegar hann lést árið 2010 eftir harða baráttu við krabbamein aðeins 31 árs að aldri.

Stansfield eldri klæddist treyju númer 9 og nú mun sonur hans gera slíkt hið sama en treyjan var hengd upp í rjáfur til heiðurs Adam á sínum tíma. Exeter nefndi líka eina af stúkum heimavallar síns í höfuðið á Adam.

Exeter er sem stendur í 9. sæti ensku C-deildarinnar með átta stig að loknum sex leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×